Katla jarðvangur hefur hlotið Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu árið 2025. Verðlaunin eru veitt fyrir vel heppnaða hönnun og bætt öryggi við nýjan útsýnisstíg og myndatökustað við Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum. Verkefnið er samstarfsverkefni Kötlu jarðvangs, Rangárþings eystra og landeigenda.

Öryggi og upplifun fara saman Markmið framkvæmdarinnar var að bæta öryggi ferðamanna og stýra betur umferð á svæðinu. Vinsæll myndatökustaður við þjóðveginn hafði skapað hættu þar sem gestir stöðvuðu oft bíla sína og gengu um á veginum til að ná myndum af eldstöðinni. Með nýja stígnum er flæði gesta nú beint frá bílastæðinu á öruggan hátt.

Styrkir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða gerðu kleift að hanna og framkvæma verkefnið með það að leiðarljósi að auka öryggi og bæta fræðslu um eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010.

Fróðlegur göngustígur og bætt aðgengi Framkvæmdin fól í sér lagningu á um 220 metra löngum göngustíg sem liggur frá bílastæðinu við Þorvaldseyri. Stígurinn er lagður með möl í svokölluðum eco-raster grindum sem falla vel að umhverfinu. Sérstök athygli hefur verið vakin á því að nafnið „Eyjafjallajökull“ er stafað með hvítum hellum í stígnum, sem setur skemmtilegan svip á svæðið.

Við stíginn er að finna 16 upplýsingaskilti sem segja sögu gossins og sýna mismunandi bergtegundir. Á skiltunum eru QR-kóðar sem vísa á heimasíðu jarðvangsins fyrir þá sem vilja kynna sér málið frekar. Við enda stígsins hafa verið settir upp stórir stuðlabergssteinar sem nýtast sem sæti, og band hefur verið sett upp til að afmarka svæðið frá þjóðveginum.

Um verðlaunin Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu hafa verið veitt árlega frá 1995. Þau eru veitt verkefnum sem þykja til fyrirmyndar hvað varðar sjálfbæra þróun, gæði hönnunar og skipulag. Þetta er í tíunda sinn sem verðlaunin falla í skaut verkefnis sem hlotið hefur styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Sveitarfélagið Rangárþing eystra óskar Kötlu jarðvangi og landeigendum til hamingju með þessa viðurkenningu og vel unnið verk.

Á leiðinni eru 16 mynda- og upplýsingaskilti
og sýni úr mismunandi bergtegundum

 

Eyjafjallajökull speglast í verðlaunagripnum.

 


Á þessari samsettu mynd má sjá hvernig "Eyjafjallajökull" er stafað með hvítum hellum.