Íþróttamaður Rangárþings eystra að þessu sinni var Ívar Ylur Birkisson frá Íþróttafélaginu Dímon. Ívar Ylur hefur átt gríðarlega góðu gengi að fagna í frjálsum íþróttum og ber þar hæst glæstur árangur hans í grindarhlaupum, spretthlaupum og hástökki. Hann æfði með hóp unglingalandsliðsins og náði þar keppnisrétti fyrir hönd Íslands á norðurlandamóti unglinga í 100 metra grind og hástökki. Hann hampaði einnig fjórum Íslandsmeistaratitlum á árinu. Auk þessara titla vann hann til fleiri verðlauna og sýndi stöðugan árangur á mótum yfir allt árið.

 

Auk Ívars Yls voru fjórir aðrir tilnefndir.

Andra Má Óskarsson frá Golfklúbbi Hellu Rangárvöllum, GHR. Andri Már er margfaldur klúbbmeistari GHR. Hann er einn öflugasti kylfingur landsins og átti gott mót á síðasta Íslandsmóti og er félagi sínu ávallt til mikils sóma.
Andri var fjarri góðu gamni en móðir Andra kom í hans fjarveru.

Hans Þór Hilmarsson frá Hestamannafélaginu Geysi. Hans Þór er öflugur keppnismaður sem hefur átt góðu gengi að fagna á keppnisvellinum en þar má meðal annars nefna að hann hampaði Íslandsmeistaratitli árið 2024 og 2025 auk þess sem hann hefur staðið sig vel á fjölda annarra móta á landsvísu.

Helgi Valur Smárason frá Knattspyrnufélagi Rangæinga. Helgi Valur hefur spilað stórt hlutverk í öflugum meistaraflokki KFR síðustu ár. Hann náði þeim merka áfanga nú í sumar að spila sinn hundraðasta leik fyrir félagið. Auk þess að vera gríðarlega sterkur leikmaður leggur Helgi Valur einnig mikið til félagsins, en heimavöllur okkar, SS völlurinn, hefur sjaldan litið betur út og hefur hann borið hitann og þungann af því með natni sinni í umhirðu við hann.

Rúnar Helgi Sigmarsson frá Skotíþróttafélaginu Skyttum. Rúnar Helgi hefur stigið gríðarlega upp á undanförnu ári í greininni loftskammbyssa og sýnt bæði stöðugleika og framfarir sem endurspegla metnað hans og elju til íþróttarinnar. Hann hefur gert það gott í keppnum í greininni en þar má nefna að hann hafnaði tvisvar sinnum í 2. sæti á Íslandsmóti.

 

Heilsu-, íþrótta- og æskulýðsnefnd Rangárþings eystra óskar Ívari Yl til hamingju og hinum fjórum til hamingju með að vera tilnefnd.