Sunnudaginn 7. ágúst sl.  var mikið um að vera í Refilstofunni á Hvolsvelli en þá komu framleiðendur ameríska þáttarins Destination Craft í heimsókn ásamt fríðu föruneyti. Erindið var að taka upp efni um Njálurefilinn og kynna sér laufabrauðsgerð. Tekið var viðtal við hönnuð refilsins Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur og einnig við Gunnhildi Eddu Kristjánsdóttur sem er önnur af forvígískonum refilsins. Þættirnir Destination Craft sem hefja göngu sína í haust eru eins konar blanda af þáttargerð, fræðslu og ferðalögum. Þáttarstjórnandinn Jim West sem hefur starfað sem þáttargerðar- og leiðsögumaður um árabil, ferðast um heiminn með hópa áhugafólks um hannyrðir og handverk og kynnir hann sér handverk sem er sérstakt fyrir hvert land og ferðalangarnir fá svo kennslu í handverkinu hjá heimafólki. Hér á landi kynnti hann sér m.a. þjóðbúningasaum, refilsaum og laufabrauðsgerð svo eitthvað sé nefnt. Þættirnir verða sýndir um öll Bandaríkin og einnig á Netflix og hefjast sýningar þeirra í haust eins og áður er getið. Skemmst er frá því að segja að Njálurefillinn vakti óskipta athygli hópsins og sérstaklega sú staðreynd að þúsundir manna skuli taka þátt í að skapa sama listaverkið á nokkrum árum og að refilinn verður að lokum lengsti refill í heimi, eða um 90 metra langur.



Lovísa í sminki.

Þáttargerðamenn ræða við hönnuðinn Kristínu Rögnu og Gunnhildi Eddu umsjónarkonu refilsins.

 

Gunnhildur Edda ásamt þáttastjórnandanum Jim West.

Frá upptökunum í Refilstofunni.

Ferðalangar að sauma í refilinn.