Fjölmenningarráð Rangárþings eystra í samstarfi við nýstofnað Fjölmenningarráð Rangárþings ytra boða til glæsilegrar fjölmenningarhátíðar laugardaginn 10. maí næstkomandi. Hátíðin fer fram í íþróttahúsinu á Hvolsvelli frá kl 14:00-16:00.

Markmið hátíðarinnar er að fagna þeim mikla fjölbreytileika menningar og þjóða sem býr í Rangárþingi eystra og Rangárþingi ytra, stuðla að samtali og samþættingu ólíkra menningarhópa og kynna þá fjölbreyttu menningu og þjóðarbrot sem sveitarfélögin státa af en á svæðinu búa einstaklingar frá um 40 mismunandi löndum. Þá verður sérstaklega lögð áhersla á að koma á samtali milli íþróttafélaga og heimila erlendra barna í tengslum við íþróttaiðkun, en kannanir hafa sýnt að þátttaka þeirra er oft minni en hjá innfæddum börnum.

Á hátíðinni gefst innflytjendum og fólki af erlendu bergi brotnu tækifæri til að kynna heimalönd sín og menningu í gegnum mat, muni, sögu, tónlist og fleira. Gestir munu geta kynnt sér ólík lönd og menningu þar sem í kynningarbásum verður boðið upp á samtal um sögu, siði og hefðir, listir og handverk frá ýmsum heimshornum.

Andlitsmálning og afþreying fyrir börn á meðan á hátíðinni stendur.

Hátíðin er opin öllum áhugasömum um fjölmenningu, óháð búsetu.