- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir

Sveitarstjórn Rangárþings eystra samþykkti fjárhagsáætlun fyrir árið 2026 við síðari umræðu á fundi sínum í síðustu viku. Áætlunin ber með sér að rekstur sveitarfélagsins er í góðu jafnvægi og gert er ráð fyrir jákvæðri rekstarniðurstöðu sem nemur 107 milljónum króna í A-hluta.
Við gerð áætlunarinnar var lögð áhersla á að styrkja þjónustu við íbúa og mæta hækkunum á fasteignamati með lækkun álagningarprósenta, auk þess að halda áfram uppbyggingu innviða.
Helstu niðurstöður og breytingar fyrir íbúa:
Traustur rekstur þrátt fyrir áskoranir Tekjur af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga munu lækka verulega, eða um 13,4%, vegna lagabreytinga sem taka gildi um áramótin. Þrátt fyrir þetta er fjárhagsstaða sveitarfélagsins sterk. Skuldahlutfallið heldur áfram að lækka milli ára og er áætlað 63,9% sem er vel innan viðmiða, og handbært fé frá rekstri er um 410 milljónir króna. Það gerir sveitarfélaginu kleift að fjármagna stóran hluta framkvæmda með eigin fé.
Úr minnisblaði sveitarstjóra:
“Mikil og góð vinna bæði kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn og starfsmanna sveitarfélagsins hefur verið lögð í áætlunina, sem jafnframt er sú síðasta sem núverandi sveitarstjórn leggur fram til samþykktar. Öll þessi mikla vinna skilar sér tvímælalaust í vandaðri áætlanagerð sem er okkur gríðarlega mikilvægt til reksturs sveitarfélagsins til framtíðar. Það er alveg ljóst að rekstur Rangárþings eystra gengur vel og er sveitarfélagið vel í stakk búið til að sinna þjónustu og uppbyggingu innviða á næstu árum. Stöndugur rekstur sveitarfélagsins á að sjálfsögðu að skila sér til íbúa með aukinni þjónustu og lægri álögum.”
Hægt er að kynna sér fjárhagsáætlunina og greinargerð með henni í heild sinni hér á heimasíðunni.