- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Þegar nemendur í Fjölbrautaskóla Suðurlands áttu að vinna verkefni tengd Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna ákvað Guðný Ósk Atladóttir, íbúi á Hvolsvelli og nemandi í Fsu, að fara í gönguferð um sitt nærumhverfi í 5 daga og tína rusl í leiðinni. Það kom Guðnýju verulega á óvart hversu mikið rusl var að finna í trjábeltinu norðan við Gunnarsgerði sem rekja má til byggingasvæða í nýjustu götum þéttbýlisins. Magnið var það mikið að Guðný þurfti aðstoð við að koma því í förgun. Einnig var mikið um almennt heimilissorp á þessu opna svæði norðan við þéttbýlið sem væntanlega hefur fokið úr ruslatunnum sem ekki er gengið nógu vel frá.
Guðný Ósk sendi póst til sveitarfélagsins til að vekja athygli á þessu magni sorps sem hún tíndi og kom fram þeirri skoðun sinni að framkvæmdaraðilar þyrftu að vera meðvitaðri um tilfallandi sorp á byggingarsvæðum sínum og sjá til þess að nærumhverfið sé hreint og fínt fyrir alla að njóta. Rangárþing eystra tekur sannarlega undir þessa skoðun Guðnýjar og þakkar henni kærlega fyrir ábendinguna og fyrir þetta metnaðarfulla verkefni. Sveitarfélagið vill einnig hvetja alla til að huga vel að frágangi sorps, hvort sem það er á framkvæmdarsvæðum eða við íbúðarhúsnæði.
Meðfylgjandi myndir tók Guðný Ósk í gönguferðum sínum.