- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
- Fréttir
Nú þegar styttist í áramótin er fátt notalegra en að sjá ljósadýrðina lýsa upp tilveruna hér í byggð. Ártalið stóra, sem vísar veginn inn í nýja árið, er komið á sinn stað í hlíðinni og minnir okkur á að árið 2026 er handan við hornið.
Þessi skemmtilega hefð á sér dýpri rætur en marga grunar, en í ár eru talin vera 48 ár frá því að ártalið var fyrst sett upp. Þetta er því óneitanlega orðinn fastur punktur í hátíðahaldinu hjá okkur í Rangárþingi eystra.
Í fréttabréfi Björgunarsveitar Dagrenningar skrifaði Þorsteinn Jónsson grein um ártalið og kemur þar fram að Guðfinnur í Björkinni hafi átt hugmyndina af ártalinu og komi frá þeirri hefð í Vestmannaeyjum að vera með ljós í klettunum á aðventunni. Fyrstu árin voru stafirnir gerðir úr mjóum járnrörum sem voru beygð og ljósaperur festar á. Böðvar Bjarnason yfirmaður í áhaldahúsinu man vel eftir þessu sem unglingur og segir að þá hafi unglingarnir í strákapörum stundað það að skrúfa perurnar úr og breyta tölunum svo í stað 1900 stóð 1700. Böðvar smíðaði svo núverandi grind undir ljósin inni á gólfi í áhaldahúsinu.
Það gerist þó ekki af sjálfu sér að koma þessu stóra mannvirki upp. Það eru vaskir félagar í Björgunarsveitinni Dagrenningu sem sjá um framkvæmdina. Við sendum þeim kærar þakkir fyrir að leggja á sig vinnuna og standa vaktina úti í kuldanum til þess að við hin getum notið ljósanna og fagnað tímamótunum með stæl.
Meðfylgjandi myndir tók Oddur Helgi Jónsson af ártalinu og vaska hópnum sem sá um uppsetninguna.
