Að venju var 17. júní haldinn hátíðlegur í Rangárþingi eystra. Hátíðarhöld voru á Hvolsvelli sem 3. flokkur kvenna KFR sá um þetta árið ásamt tilvonandi 10. bekkingum Hvolsskóla sem sáu um glæsilegt morgunkaffi.

Hátíðarhöldin byrjuðu strax á fimmtudeginum með þjóðhátíðarbingói, leik í meistaradeild þar sem KFR sigraði Þorlák 4 - 2.

Skrúðgangan hófst kl. 12:30 sem fór frá Kirkjuhvoli og endaði á miðbæjartúninu við Hvolinn. Hörðustu Rangæingarnir mættu í skrúgöngu með lúðrasveit í broddi fylkingar og létu rok og rigningu ekkert á sig fá.

Það rættist þó úr veðrinu þegar á túnið var komið og tók þar við glæsileg hátíðardagskrá. Þar flutti fjallkonan ljóð sem að þessu sinni var hún Sjöfn Lovísa Bahner Jónsdóttir.

Hátíðarræðan var flutt af séra Kristjáni Arasyni sóknarpresti Breiðabólsstaðarprestakalls.

Áður en Kristján flutti hátíðarræðuna hituðu strákarnir í VÆB ásamt dönsurum upp fyrir prestinn og dönsuðu ungir sem aldnir með í kraftmikilli dagskrá þeirra.

Það var svo virkilega skemmtilegt að sjá tvær hljómsveitir stíga á stokk með ungu tónlistarfólki úr héraði. Fyrst spilaði strákabandið Mysingur nokkur lög og svo stelpubandið nafnlausa sem fékk þó nafnið Skessurnar á sviðinu þar sem nafnið Grílurnar er frátekið, óvíst er þó hvort það verði fyrir valinu til frambúðar.

Báðar þessar hljómsveitir voru virkilega flottar og sýnist það best hvað tónlistarlíf í Rangárþingi er blómlegt og tónlistarkennslan góð.

Hátíðarkaffi var svo í Hvolnum, andlitsmálning og margt fleira skemmtilegt fyrir yngri kynslóðina.

Á Goðalandi, Njálsbúð og Heimalandi stóðu kvenfélögin Eygló, Bergþóra og Hallgerður fyrir dagskrá þar sem boðið var upp á kaffi, kökur og dagurinn haldinn hátíðlegur.

Fjallkona á hátíðarhöldunum í Goðalandi í Fljótshlíð var Helena Dröfn Kristjánsdóttir og á Heimalandi undir Eyjafjöllum var fjallkonan Sandra Líf.

Aðalheiður Margrét Gunnarsdóttir hlaut afreksbikar Búnaðarsambands Suðurlands fyrir félagsstörf og sinn þátt í eflingu tónlistarlífs og viðburða í sveitarfélaginu.

Við þökkum kvenfélögum, KFR, Hvolsskóla, ungmennafélögum, bjögunarsveit, lögreglu, tónlistarskólanum og öllum þeim sem komu að hátíðarhöldunum innilega fyrir frábæra hátíðardagskrá.

Fleiri myndir má finna hér í myndasafni

 

Sjöfn Lovísa Bahner Jónsdóttir

 

Helena Dröfn Kristjánsdóttir ásamt fylgdarsveinum

 

Sandra Líf ásamt dóttur sinni

 

Aðalheiður Margrét Gunnarsdóttir hlaut afreksbikarinn