Frá Gröndal og Sigurði til Tryggva og Jónda í Lambey
Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur), rannsóknarprófessor við Listaháskóla Íslands, flytur fyrirlestur að Kvoslæk í Fljótshlíð laugardaginn 26. ágúst klukkan 15.00 um vormenn íslenskrar teiknilistar við lok nítjándu aldar og upphaf tuttugstu aldar. 

„Við getum kallað þá upphafsmenn íslenska myndmálsins,“ segir Goddur. „Þeir voru flestir sjálfmenntaðir en það sem kallað er sérmenntun í hagnýtri grafíklist kom síðar. Þar var kona í fararbroddi, Ágústa Pétursdóttir Snæland. Fyrirlesturinn mun fjalla um þá sem ruddu brautina en þótt Jón Kristinsson (Jóndi í Lambey í Fljótshlíð) sé mun yngri en þeir teiknarar sem fjallað verður um tengist hann Rafskinnu sem á heldur betur sinn sess í þessu vori íslenska myndmálsins.“

Fyrirlesturinn er öllum opinn og að honum loknum verður kaffi í boði.
Kvoslækur er 10 km frá Hvolsvelli þegar ekið er inn Fljótshlíðina, um 90 mínútna akstur frá Reykjavík.
Uppbyggingarsjóður Suðurlands styrkir menningarstarf að Kvoslæk.