Nemendur og kennarar í Héraðsskólanum á Skógum hófu uppgræðslu og skógrækt í brekkunum fyrir ofan skólann árið 1950. Markmiðið var að loka rofabörðum og freista þess að stoppa moldrokið. Í dag er þar vaxinn upp mikill skógur og hefur verið unnið af krafti þar í sumar og haust til að gera hann aðgengilegri íbúum, gestum þeirra og almenningi. Þar hefur verið grisjað, gerðir stígar og smíðaðar tröppur í bröttustu brekkunum. Tveir hópar sjálfboðaliða komu og unnu í skóginum í sumar, í hálfan mánuð hvor. Starfsmenn áhaldahús Rangárþings eystra hafa séð um að kurla allt efni sem fellur til úr skóginum og er það notað í göngustíga. Búið er að gera um 70 tröppur upp erfiðustu brekkurnar. Einnig var gerður stígur / hringur fyrir þá sem ekki eiga gott með að fara upp brekkur.


Þorsteinn Jónsson hefur unnið ötullega að því að gera skóginn tilbúinn og tók hann myndirnar sem birtast með þessari frétt.

Til stendur að ljúka þessari vinnu á næstunni og á að opna skóginn formlega sunnudaginn 15. september kl. 14:00. Allir eru hjartanlega velkomnir.