Það var góð stemning í Rangárþingi eystra um páskana en boðið var upp á viðburði undir nafninu Páskafjör fjölskyldunnar. Um 3.500 manns mættu á svæðið á laugardeginum og góð þátttaka var einnig í viðburðum dagana á undan. LAVA og Midgard Base Camp voru þungamiðjan í hátíðarhöldunum, og héldu starfsmenn þeirra að miklu leiti utan um viðburðinn, en fjöldi annarra fyrirtækja á svæðinu tóku þátt í fjörinu og gátu flestir fundið eitthvað við sitt hæfi.

Til dæmis var boðið upp á hressandi göngur, Midgard leiddi göngu á Þríhyrning og Margrét Guðjónsdóttir sagði gestum skemmtilegar sögur á göngu um Hvolsvöll. Hápunktur hátíðarinnar, að minnsta kosti fyrir yngri kynslóðina var svo páskaeggjaleit hjá LAVA þar sem bæði páskaegg og stærri vinningar voru í boði fyrir þátttakendur. Veitingastaðir voru með góð tilboð þannig að engin þurfti að fara svangur heim og að sjálfsögðu hægt að gæða sér á páskaís í Valdísi. Fjölmargir skelltu sér svo í fjörugt dansandi bingó í Midgard og skemmtu sér vel. Rangárþing eystra bauð frítt í sund á laugardeginum enda fátt betra en að skella sér í sundlaugina á svona góðum degi.

Páskafjör fjölskyldunnar er sannarlega viðburður sem kominn er til að vera og hlökkum við í Rangárþingi eystra til að taka á móti gestum um páskahelgina 2020.

Göngugarpar á leið á Þríhyrning

ganga