Í næstu viku mun opna veitingavagn við Seljalandsfoss en vagninn reka tvenn hjón, Elísabet Þorvaldsdóttir og Heimir Hálfdanarson ásamt Kristínu Guðbjartsdóttur og Atla Má Bjarnasyni. Heimir er frá Seljalandi og er hluteigandi að jörðinni við Seljalandsfoss en Seljaland og Seljalandssel eiga skikann í óskiptri sameign. Allir landeigendur veittu samþykki sitt eins og sveitarfélagið Rangárþing eystra gerði að skilyrði sínu þegar veitt var stöðuleyfi fyrir veitingavagninum. Leyfið gildir til 1. október 2013.
 Í viðtali á Visir.is segir Elísabet að í vagninum verði boðið upp á kaffi, gos, samlokur, pylsur, súpu og svo eitthvað af minjagripum og ferðamannavörum. Einnig verða til sölu regnslár því að margir sem vilja fara bak við fossinn eru alls ekki með útbúnað í það og því sé eftirspurn eftir þessari þjónustu. „Maður blotnar alltaf bak við foss“ segir Elísabet.