Um 120 manns voru saman komin í Félagsheimilinu Hvolnum á Hvolsvelli þegar útskrift elstu barna í leikskólanum Örk fór þar fram miðvikudaginn 28. maí sl.  Það var glæsilegur 25 barna hópur sem útskrifaðist af fyrsta skólastiginu.  Börnin sungu 2 lög með aðstoð deildarstjóranna Erlu Berglindar og Unnar undir stjórn Ingibjargar Erlingsdóttur tónmenntakennara í Hvolsskóla.  Það voru lögin Fiskurinn hennar Stínu og Enga fordóma sem þau sungu af stakri snilld og fengu mikið klapp fyrir úr fullum salnum. Eftir söngatriðið voru þau kölluð upp eitt í einu og fengu afhenta rós og  útskriftarskjal ásamt ferilmöppunni sinni sem safnað hefur verið í frá upphafi leikskólagöngu.  Eftir athöfnina var öllum viðstöddum boðið upp á skúffuköku, kaffi og kókómjólk.  Virkilega glæsileg og hátíðleg útskriftarathöfn sem allir fóru heim af glaðir og ánægðir og jafnvel örlítið tárvotir.