Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur staðfest tillögu stjórnar Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða um úthlutun vorið 2016. Alls eru veittar 596 milljónir kr. til einstakra verkefni en að auki verður 51. m.kr. úthlutað sérstaklega af ráðherra ferðamála til sérstaklega brýnna verkefna vegna öryggis á ferðamannastöðum að tillögu Stjórnstöðvar ferðamála. Allar nánari upplýsingar um sjóðinn og úthlutunina má finna á vef Ferðamálastofu.

Til svæða í Rangárþingi eystra fengust rúmlega 35 milljónir sem skiptast á eftirfarandi hátt:

Katla jarðvangur (Geopark) - Heildstætt útlit og merkingar
Kr. 10.000.000,- styrkur til merkinga við áningarstaði og meðfram stígum á
völdum stöðum innan Kötlu jarðvangs.
Mikilvægt og gott verkefni með tilliti til almennrar fræðslu- og aðgengismála á
vinsælu ferðamannasvæði.

Skógrækt ríkisins - Viðhald gönguleiða á Þórsmerkursvæðinu
Kr. 4.725.000,- styrkur til áframhaldandi viðhalds gönguleiða og merkinga á
Þórsmerkursvæðinu. Verkefnið er unnið í samstarfi við Vini Þórsmerkur.
Forgangsverkefni vegna náttúruverndar, aðgengis- og öryggismála á
viðkvæmu svæði sem er undir síauknu álagi ferðamanna.

Vinir Þórsmerkur - Viðhald gönguleiða og merkingar á Þórsmerkursvæðinu
Kr. 8.610.000,- styrkur til áframhaldandi viðhalds gönguleiða og merkinga á
Þórsmerkursvæðinu í samstarfi við Skógrækt ríkisins.
Áframhald á vel unnu verkefni vegna náttúruverndar, aðgengis- og
öryggismála á viðkvæmu svæði undir síauknu álagi ferðamanna .

Umhverfisstofnun - Skógaheiði, Skógafoss - Hönnun, skipulag og
framkvæmdir. 1. áfangi

Kr 12.000.000,- styrkur til lagfæringar og endurbóta á 4-5 km löngum
göngustíg meðfram fossaröð Skógár ofan Skógafoss, en svæðið er á
appelsínugulum lista Umhverfisstofnunar vegna ágangs ferðamanna. Prílur
yfir fjárhelda girðingu verða fjarlægðar og sjálflokandi hlið sett í staðinn.
Mikilvægt verkefni vegna náttúruverndar á vinsælum ferðamannastað undir
miklu álagi.
Hluti verkefnis er á lista Stjórnstöðvar um brýnar aðgerðir til að tryggja öryggi
á ferðamannastöðum.