Úrslitin í skreytingakeppni Rangárþings eystra eru ljós eftir fjölda ábendinga frá íbúum sem og áliti frá sérstökum álitsgjöfum. Við viljum hrósa íbúum sveitarfélagsins fyrir að standa sig virkilega vel í skreytingum í ár og valið á sigurvegurum var mjög erfitt. Vinningshafar fyrir skreytingar á íbúðarhúsum og görðum fengu girnilega gjafakörfu frá Hótel Fljótshlíð í Smáratúni þar sem finna mátti m.a. kjötvörur, paté, sultur og nýbakað rúgbrauð. Best skreytta fyrirtækið fékk í verðlaun fallega skreytta lugt frá Rafverkstæði Ragnars.

Fallegasta jólaskreytingin var valin hjá hjónunum Agnese og Raimonds Cernavs en þau búa í Litlagerði 2b. Ummæli um skreytingarnar voru m.a. að kúlurnar í garðinum væru heimasmíðaðar og einstaklega stílhreinar og fallegar. Skreytingarnar vekja verðskuldaða athygli þeirra sem keyra eða ganga framhjá og setja mikinn svip á garðinn.

Skemmtilegasta jólaskreytingin er hjá mæðginunum Unni og Birni Andra Bergmann ásamt Łukasz Nogal en þau búa á Nýbýlavegi 20. Fjölmargir sögðu að skreytingarnar væru virkilega skemmtilegar og frumlegar. Þó garðurinn við húsið væri ekki stór er skreytingunum haganlega komið fyrir og stjörnurnar á húsinu setja punktinn yfir i-ið.

Best skreytta fyrirtækið að þessu sinni var Fóðurblandan. Stóra stjarnan á toppi verslunarinnar er virkilega flott útfærsla og heimasmíðuðu jólatrén sem prýða verslunina að utan eru stílhrein, skemmtileg og falla einstaklega vel að umhverfinu. Tryggvi Bjarnason, verslunarstjóri, tók við verðlaununum fyrir hönd Fóðurblöndunnar.