Mánudaginn 3. mars var undankeppni fyrir Upplestrarkeppni grunnskólanna haldin í Sögusetrinu á Hvolsvelli. Nemendur í 7. bekk Hvolsskóla lásu þar upp textabrot úr Benjamín dúfu og ljóð að eigin vali. Allir krakkarnir stóðu sig með eindæmum vel en að lokum voru 4 fulltrúar skólans valdir. Aðalfulltrúar verða Björn Mikael Karelsson og Fanndís Hjálmarsdóttir og varafulltrúar þær Guðný Ósk Þorsteinsdóttir og Hafdís Jana Sigurðardóttir.

Markmið upplestrarkeppni í 7. bekk grunnskóla er að vekja athygli og áhuga í skólum á vönduðum upplestri og framburði. Keppnin sjálf er í rauninni aukaatriði og forðast skyldi að einblína á sigur. Mestu skiptir að kennarar nýti þetta tækifæri til að leggja markvissa rækt við einn þátt móðurmálsins með nemendum sínum, vandaðan upplestur og framburð, og fái alla nemendur til að lesa upp, sjálfum sér og öðrum til ánægju. Stefnt skyldi að því að allur upplestur í tengslum við keppnina sé fremur í ætt við hátíð en keppni. Þetta á ekki síst við um lokahátíð keppninnar.