Undanfarna daga hefur verið unnið að lagningu nýrra stíga við Hamragarða og lagfæring á eldri stígum meðal annars á milli Hamragarða og Seljalandsfoss. Þó nokkuð stígakerfi er við Hamragarða og Seljalandsfoss og hefur sveitarfélagið unnið að lagfæringu og lagningu nýrra stíga markvisst undanfarin ár í samvinnu við verktaka á svæðinu og með aðstoð starfsmanna í áhaldahúsi sveitarfélagins. Sveitarfélagið hefur sótt í styrki til verkefnisins meðal annars í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og einnig fyrir skipulagsvinnu fyrir svæðið og stendur sú vinna nú yfir. Fjöldi ferðamanna sem fara að Seljalandsfossi og Hamragörðum hefur aukist mikið undanfarin ár og árið 2014 komu 43 þúsund fleiri gestir yfir sumarmánuðina júní - ágúst en árið 2013.