Ungmennaþing er nú haldið í Hvolsskóla en það er Ungmennaráð Rangárþings eystra sem stendur fyrir þinginu. Markmið Ungmennaþings er að börn og ungmenni geti komið sínum skoðunum á framfæri til að hafa áhrif á samfélagið okkar allra.

Við setningu Ungmennaþingsins kynnti Ungmennaráð sig og Ólafur Örn, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi fór yfir það hvernig þingið fer fram. Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri, talaði svo um hversu mikilvægt það væri að halda þing sem þetta því raddir barna og ungmenna í sveitarfélaginu væru eins mikilvægar og annarra íbúa. Börnunum er skipt í umræðuhópa en hópunum stýra fulltrúar úr Ungmennaráði og fulltrúar úr sveitarstjórn.

1. - 6. bekkur byrjaði á þinginu klukkan 11 og verða til klukkan 13. Þau vinna þau saman í umræðuhópum, hver hópur ræðir mikilvægt málefni eins og skipulags- og umhverfismál, forvarnir, menningu og skólamál. 

7. bekkur og eldri mætir svo á þingið klukkan 14 og eru þá starfandi til klukkan 16. Sama verður uppi á teningnum hjá þeim eldri, umræðuhópar um mikilvæg málefni sem snerta alla íbúa.

Ungmennaþing var einnig haldið síðastliðið haust með góðum árangri og nú þegar hafa ýmis verkefni komist til framkvæmda sem börnin vöktu athygli á og ræddu um á síðasta þingi.