Í lok júnímánaðar fer Norræna píanókeppnin fram í Nyborg í Danmörku. Að þessu sinni taka þátt þrír nemendur Peters Máté píanóleikara. Þeir eru Jane Sutarjo, sem kennir við Tónlistarskóla Árnesinga á Selfossi, Glódís Margrét Guðmundsdóttir og Einar Bjartur Egilsson, en þau tvö stunda bæði nám við Listaháskóla Íslands. Til lokaundirbúnings keppninnar mun Peter Máté vera með þessa nemendur sína við stífar æfingar í Selinu á Stokkalæk dagana 17., 18. og 19. júní. Alla dagana kl. 17 verða opnar æfingar þar sem öllum sem áhuga hafa er heimilt að koma og hlýða á þessa úrvalsnemendur leika listir sínar.