Síðastliðin 5 ár hafa félagar úr Ungmennafélaginu Trausta komið saman til að hreinsa sitt nánasta umhverfi og á því var engin breyting núna í vor. Haldið var af stað og gengið meðfram þjóðveginum, allt rusl tekið og heilum vegstikum sem farið hafa á flakk safnað saman. Vegagerðin tekur svo við stikunum og Rangárþing eystra styrkti ungmennafélagið um ruslagám fyrir það sem safnaðist. Í lok dagsins kemur svo hópurinn saman og gæðir sér á grilluðum pylsum eða heitri og góðri súpu eftir gott dagsverk

Markmið Trausta með þessu verkefni er að sýna samfélagslega ábyrgð og hafa nærumhverfið hreint og fallegt, bæði fyrir íbúa en einnig þá sem þar keyra í gegn á hverjum degi.

Ungmennafélagið Trausti á mikið hrós skilið fyrir að standa fyrir þessu verkefni og eru algjörlega til fyrirmyndar.