Tunguskógur og Tumastaðir eru um 9 km frá Hvolsvelli. Þetta er vinsæll útivistarstaður í Rangárþingi eystra. Hér hafa heimamenn ræktað upp allmikið skóglendi, lagt þar göngustíga og komið fyrir borðum og bekkjum. Þarna er fallegt umhverfi, skjólsamt og mikið fuglalíf. Hægt er að velja um mislangar gönguferðir. Skógrækt Ríkisins hóf rekstur gróðrarstöðvar á Tumastöðum árið 1944 og sveitungar hófu skógrækt í brekkunum í Tungulandi, sem er samliggjandi Tumastöðum árið 1951. Upp úr 1980 hóf hreppurinn stígalagningu í Tunguskógi og fékk meðal annars jarðýtu til að leggja aðalstíginn í brekkunni. Síðan hefur smám saman bæst við stígana og unnið hefur þar verið við grisjun á skóginum. Þá var þar um tíma höggvið umtalsvert af jólatrjám sem fór í afgreiðslu Landgræðslusjóðs og enn höggva Fljótshlíðingar sér þar tré. Stígarnir um Tunguskóg tengjast stígum Skógræktar Ríkisins og öllum er velkomið að njóta skóganna. Tunguskógur er nú í eigu Rangárþings eystra og árið 2006 samþykkti sveitarstjórn að framtíðar útivistarsvæði sveitarfélagsins verði byggt upp í Tunguskógi og vonast sveitarstjórn til þess að íbúar sveitarfélagsins verði duglegir við að nýta sér skóginn til útivistar og kynna svæðið fyrir gestum sínum.

Hér má finna upplýsingar um svæðið: Tuma- og Tunguskógur

Um þessar mundir eru gullregn skógarins í fullum blóma en á Tumastöðum er einn af stærstu gullregnsskógum á Íslandi. Meðfylgjandi mynd tók Hrafn Óskarsson.