Tour de Hvolsvöllur, Naflahlaup og fjölskylduhátíðin Hvolsvöllur.is 

Laugardaginn 27. júní er mikið um að vera í Rangárþingi eystra en þá fer fram  Tour de Hvolsvöllur. Keppendur í Tour de Hvolsvöllur hjóla frá Reykjavík eða frá Selfossi. Þessar tvær vegalengdir eru í boði og fer skráning fram á hjolamot.is. Vel er tekið á móti keppendum á Hvolsvelli eins og undanfarin ár, grillaðar verða pylsur og girnileg kjúklingasúpa verður í boði ásamt drykkjum. Allir keppendur fá frítt í sundlaugina á Hvolsvelli. 


Sama dag fer fram hið vinsæla Naflahlaup. Í boði eru þrjár vegalengdir, 21 km 13 km og 5 km. Hlaupið er frá Hvolsvelli og Tumastöðum í Fljótshlíð að Smáratúni í Fljótshlíð. Hlaupið hefst klukkan 10:00, sjá má allar upplýsingar inn á facebooksíðu hlaupsins - Naflahlaup.

Í tengslum við Tour de Hvolsvöll þá verða hjólaþrautir fyrir yngsta fólkið í miðbæ Hvolsvallar og síðar um daginn verður hjólakeppni fyrir fjölskylduna og hefst hún við íþróttamiðstöðina. 

Fjölskylduhátíðin Hvolsvöllur.is fer einnig fram 27. júní og er hún í beinu framhaldi af Tour de Hvolsvöllur og Naflahlaupi. Skemmtileg dagskrá verður í boði fyrir allan aldur þar sem flottir listamenn úr sveitarfélaginu halda upp fjörinu með flottum tónlistaratriðum, en í ár koma fram þrjár hljómsveitir - allar með sinn sjarma. 

Sveitabúðin UNA opnar formlega en þar hefur Valborg Jónsdóttir tekið við bragganum og mun reka þar skemmtilega sveitarbúð með vörum úr héraði og býður einnig upp á kaffi og gott með því. 

Útiljósmyndasýningin 860 plús verður opnuð formlega en þar er búið að koma upp fallegum myndum úr héraðinu og setur skemmtilega svip á miðbæ Hvolsvallar. 

 

Eitthvað fyrir alla og allir velkomnir. Sjá dagskrána fyrir 27. júní 2015.