Um síðastliðna helgi var sjötta og síðasta þorrablótið í sveitarfélaginu haldið á Heimalandi en þar skemmtu Vestur-Eyfellingar sér saman með gestum sínum.

Frá því 23. janúar hafa þorrablót verið haldin í öllum félagsheimilum í Rangárþingi eystra og menn skemmt sér með eindæmum vel. Að baki velheppnuðum þorrablótum sem þessum er þrotlaus vinna þeirra sem að eru í þorrablótsnefndum hvers árs og eiga íbúar sveitarfélagsins þakkir skilið fyrir að gefa alla þessa vinnu til að skemmta sveitungum sínum.

Svo má líka nefna að Leikskólinn Örk og Dvalar- og hjúkrunarheimilið Kirkjuhvoll halda þorrablót á hverju ári og það eru því allir aldurshópar er njóta þorrans

Þorrablótin eru menningararfur sem síður en svo eru á undanhaldi og eitt er víst að líklega eru allir farnir að hlakka til að blóta þorranum 2017 og nefndarfólk byrjað að safna í sarpinn fyrir skemmtiatriðin.