Þorsteinn Ragnar Guðnason er íþróttamaður ársins í Rangárþingi eystra árið 2020. Þorsteinn Ragnar kynntist og byrjaði að æfa Taekwondó 9 ára gamall. Hann er meðal yngstu íslendinga sem fengið hafa svarta beltið í sinni íþrótt en þau hlaut hann 15 ára gamall. Í dag er hann bæði kominn með þjálfara og dómararéttindi. Þorsteinn er mjög einbeittur og einarður í að ná þeim markmiðum sem hann setur sér og hefur náð mjög langt í sinni íþrótt. Hann er í íslenska landsliðinu og sækir öll þau mót sem kostur er á, hvort sem er á Íslandi eða erlendis, og vinnur yfirleitt til gullverðlauna. Hann hefur einnig tekið þátt í norðurlandamótum og heimsmeistaramóti og staðið sig þar með mikilli prýði. Undanfarin 2 ár hefur Þorsteinn Ragnar stundað nám á íþróttabraut Fsu, hann er metnaðarfullur nemandi og leggur sig fram, auk þess liggja öll fög sem snúa að íþróttunum, næringu og líkamlegri sem og sálrænni styrkingu og markmiðssetningu einstaklega vel fyrir honum enda áhuginn brennandi þar.

Ásamt Þorsteini voru þau Andri Már Óskarsson, golfari, Þormar Elvarsson, knattspyrnumaður og Kasia Kosecka – Skorupka, hlaupari, tilnefnd til verðlaunanna.

Það var Páll Eggertsson, formaður Heilsu-, íþrótta- og æskulýðsnefndar sem að afhenti verðlaunin á 17. júní.