Teymi jafningjafræðslu Suðurlands, sem er verkefni á vegum SASS, kom í heimsókn á dögunum og var með fræðslu fyrir starfsmenn vinnuskólans. Jafningjafræðslan býður ungmennum upp á góða og hnitmiðaða fræðslu sem styður heilbrigðan lífstíl. Hugmyndafræðin er í stuttu máli sú að “ungur fræðir ungan.” sem gengur út á þá kenningu að ungmenni nái betur til annarra ungmenna en aðrir. Jafningjafræðsla Suðurlands er því skipuð fjórum ungmennum frá Suðurlandi á aldrinum 17-21 árs sem fræða annað ungt fólk um sjálfsmyndina og lífið almennt.

Fræðslan samanstendur af endurspeglun ungmennamenningu hvers tíma þar sem lagt er m.a. áherslu á almenna lýðheilsu, styrkingu sjálfsmyndar, fræðslu um neyslu áfengis, tóbaks og vímuefna, samskipti kynjanna, kynlíf, kynheilbrigði, líkamsvitund og virðingu, klám, réttindi ungs fólks, fíkn, geðheilsu, einelti ásamt samskiptum í raunheimum og á netmiðlum.

Dagskráin samanstóð af ofangreindum málefnum, svörun spurninga og hópeflisleikjum og eins og sjá má nutu krakkarnir sín vel með ungmennunum fjórum.

Við þökkum jafningjafræðslunni hjartanlega fyrir komuna og einnig fyrir þátttökuna í verkefninu.

Fyrir hönd vinnuskólans

Ólöf Sara og Sæbjörg