Styrkir frá NATA


Við minnum á að nú er opið fyrir umsóknir um styrki frá NATA, samstarfssamningi Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði ferðamála. Styrkirnir geta hentað bæði þeim sem hyggja á ferðalög á milli landanna eða eru að vinna að einhverju ferðaþjónustutengdu verkefni. 
Styrkir til tvenns konar verkefna
Í samræmi við það sem samningur landanna kveður á um er, líkt og framan greinir, hægt að sækja um styrki til tvennskonar verkefna:
Þróunar- og markaðsverkefna í ferðaþjónustu
Ferðastyrki, t.d. vegna skólahópa, íþróttahópa eða menningarverkefna
Vakin er athygli á að stjórn NATA leggur sérstaka áherslu á umsóknir sem tengjast sjálfbærri ferðamennsku.

Styrkir til verkefna í ferðaþjónustu
Allir sem starfa að eflingu ferðaþjónustu í samstarfi landanna þriggja geta sótt um styrk að hámarki 100.000 danskar krónur, eða að hámarki 50% þeirra kostnaðarliða sem styrktir eru. Skulu umsóknir fela í sér samstarf milli einstaklinga, stofnana eða fyrirtækja í tveimur af löndunum þremur hið minnsta. Ekki eru veittir styrkir vegna launakostnaðar, ráðgjafar, útgáfu efnis eða vefsíðugerðar.
Sækja má um aðstoð á eftirfarandi sviðum ferðaþjónustu.
Til markaðssetningar.
Til nýsköpunar- og vöruþróunar.
Til að mynda tengslanet og miðla þekkingu.
Til gæða- og umhverfismála innan ferðaþjónustunnar.
Við mat á umsóknum verður tekið tillit til eftirfarandi þátta:
Verkefnishugmyndar og gæða umsóknarinnar. Ófullgerðar umsóknir verða ekki teknar til greina.
Nýnæmis og nýsköpunargildis verkefnisins
Markaðstengingar
Kostnaðaráætlunar og annarrar fjármögnunar
Samfélagslegs gildis

Styrkir vegna kynnis- og námsferða
Eitt af markmiðum samstarfssamnings um ferðamál á milli Íslands, Grænlands og Færeyja er að auka samskipti og fjölga heimsóknum á milli landanna þriggja. Hér með eru auglýstir ferðastyrkir til þeirra sem vinna að samstarfsverkefnum sem varða tvö af löndunum þremur hið minnsta. Styrkjunum er einvörðungu ætlað að standa straum af ferðakostnaði, ekki gistingu eða uppihaldi. Hámarksstyrkur á hvern einstakling er  1.000 danskar krónur vegna ferðalaga milli Íslands og Grænlands annars vegar og Íslands og Færeyja hins vegar.
Sækja má um styrk til kynnis- og námsferða eftirtalinna:
Skóla
Íþróttahópa
Tónlistarhópa
Annars menningarsamstarfs
Við mat á umsóknum verður tekið tillit til eftirfarandi atriða:
Verkefnishugmynd
Gæði umsóknar. Ófullgerðar umsóknir verða ekki teknar til greina.
Gagnkvæmni og tengslamyndun
Kostnaðaráætlun, fjármögnun
Hvar er sótt um?
Allar umsóknir þurfa að berast með rafrænum hætti á þar til gerðum umsóknarblöðum sem finna má á vef NATA. Vefurinn og umsóknarformin eru bæði á dönsku og ensku.
Nánari leiðbeiningar um umsóknir á vef NATA
Opna umsóknasíðu á vef NATA

Skilafrestur
Lokafrestur til að skila umsókn er á miðnætti (GMT) 20. febrúar 2018. Umsóknir eða fylgigögn sem berast eftir þann tíma verða ekki tekin gild. Niðurstaða stjórnar NATA um úthlutun mun liggja fyrir 10. apríl 2018 og munu umsækjendur fá svar þann dag. Athugið að verkefni með áætluð verklok fyrir 10. apríl eru ekki styrkhæf og sama á við um ferðir sem lýkur fyrir þann tíma.
Næsti umsóknarfrestur 
Um er að ræða fyrri úthlutun af tveimur á árinu 2018. Áætlað er að umsóknarfrestur vegna seinni úthlutunar 2018 verði á tímabilinu  ágúst-september 2018 en það verður auglýst sérstaklega síðar.
Nánari upplýsingar
Nánari upplýsingar gefur starfsmaður NATA, Birita Johansen, sími 00 298 30 9900 eða í gegnum netfangið nata@industry.fo