- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
Frá og með 2. janúar verður hægt að ferðast um Suðurland með strætó, allt frá Reykjavík og austur á Höfn í Hornafirði. Þetta er liður í stórfelldri stækkun þjónustusvæðis Strætó bs. í samstarfi við Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS). Eitt samtengt leiðakerfi verður allt frá Höfn í Hornafirði og til Reykjavíkur, um uppsveitir Árnessýslu, niður í Þorlákshöfn og Landeyjahöfn. Þessi breyting felur m.a. í sér að fleiri Sunnlendingar eiga möguleika á að sækja vinnu til höfuðborgarsvæðisins og gagnkvæmt.
Fargjöld verða lægri og tímaáætlanir leiðanna verða samræmdar, svo farþegar komist hraðar á milli staða. Suðurlandi er skipt í mismunandi gjaldsvæði og fargjöld miðast við fjölda gjaldsvæða sem farið er um. Tímatöflur allra nýju leiðanna verða aðgengilegar á vef Strætó fyrir áramót og þar verður einnig að finna reiknivél sem reiknar út fargjöld með tilliti til lengdar ferðar og mismunandi fargjaldaforma. Hagkvæmast er fyrir viðskiptavini að kaupa kort og farmiða á vef Strætó en einnig verður hægt að staðgreiða vagnstjórum farið beint með peningum, debet- eða kreditkorti. Ennfremur eru farmiðar seldir á sölustöðum Strætó á Hlemmi og í Mjódd og á bæjarskrifstofum flestra þeirra sveitarfélaga sem ekið er til.
Akstur hefst á fimm nýjum leiðum í ársbyrjun; leið 51 (Mjódd – Hveragerði – Selfoss – Hvolsvöllur – Vík – Skaftafell – Höfn), leið 52 (Reykjavík – Hveragerði – Selfoss – Hella – Hvolsvöllur – Landeyjahöfn), leið 71 (Hveragerði – Þorlákshöfn – Hveragerði), leið 72 (Selfoss – Borg – Laugarvatn) og leið 73 (Selfoss – Flúðir). Á sumum þessara leiða (72 og 73) þarf að bóka ferð með minnst tveggja tíma fyrirvara í síma 540 2700 og á leið 51 þarf að panta far milli Víkur og Hafnar fyrir kl. 18 daginn áður.
Sú nýbreytni verður tekin upp að strætófarþegar geta kynnt sér ferðir vagnanna á svokölluðu rauntímakorti á vefnum www.straeto.is. GPS-búnaður sem er um borð í öllum vögnum gerir farþegum kleift að fylgjast með ferðum vagnanna og er staðsetning þeirra uppfærð á um tíu sekúndna fresti, svo nákvæmnin er mikil. Þetta getur verið sérlega þægilegt á þeim stöðum sem og tímum dags þegar ferðir vagna eru strjálar eða veður og færð geta raskað tímaáætlunum. Þannig getur t.d. verið hentugt fyrir farþega sem ætlar með strætó frá Hellu til Hvolsvallar að geta fylgst með hvenær vagninn sem fór frá Reykjavík kemur við á Hellu. Þannig getur viðkomandi komist hjá því að bíða í óvissu eftir vagninum en farið þess í stað út á stoppistöð alveg á réttum tíma.
„Við bindum miklar vonir við þetta nýja samræmda almenningssamgöngukerfi á Suðurlandi og ég skora á Sunnlendinga að nýta sér þá auknu þjónustu sem býðst með því. Enginn vafi er á því að um verulegan sparnað getur verið að ræða fyrir almenning, auk þjóðhagslegs og umhverfislegs ávinnings,“ segir Þorvarður Hjaltason, framkvæmdastjóri Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.
Upplýsingar um strætósamgöngur á Suðurlandi er að finna á vefnum www.straeto.is.
Nánari upplýsingar veitir: Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs. í síma 897 3038
Tímatöflur hafa verið settar inn á heimasíðu Rangárþings eystra og má nálgast þær hér: www.hvolsvollur.is/menning-og-mannlif/straeto-a-sudurlandi/