Eins og glöggir vegfarendur, sem leið hafa átt í og framhjá Stóragerðinu, hafa tekið eftir þá hefur átt sér stað nafnabreyting á götunni. Horfið hefur verið til gamalla tíma í tilefni þess að íbúar við götuna sjá um þorrablót Hvolhreppinga nú í ár og gatan heitir nú Sjússamýri. Þegar íbúar Stóragerðis héldu blót áður fyrr þá fékk gatan þetta nafn og hús við götuna fengu einnig góð og gild heiti eins og Landalækur, Koníakskot, Vodkaver, Sjennastaðir og Glasabakki. Þorrablót Hvolhreppinga fer fram í Hvolnum þann 2. febrúar næstkomandi.

null