Föstudaginn 27. janúar sl. var undirrituð viljayfirlýsing milli Sláturfélags Suðurlands og Rangárþings eystra þess efnis að SS muni byggja 24 íbúðir fyrir starfsmenn sína á Hvolsvelli. Það voru þeir Steinþór Skúlason, forstjóri SS, og Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra, sem undirrituðu viljayfirlýsinguna. Íbúðirnar verða staðsettar á þremur stöðum í þéttbýlinu og vonir standa til að fyrstu íbúðirnar verði tilbúnar í byrjun næsta árs.

Táknrænt var að undirrita yfirlýsinguna á þessum tíma en þann 28. janúar sl. fagnaði Sláturfélag Suðurlands 110 ára afmæli sínu en bændur komu saman við Þjórsárbrú 28. janúar 1907 og stofnuðu Sláturfélag Suðurlands. Stofnfélagar voru 565 og stofnfé samtals 11 þúsund krónur. Fyrsti forstjóri Sláturfélags Suðurlands var Hannes Thorarensen. Fyrirtækið er enn samvinnufyrirtæki í eigu bænda og nú eru virkir eigendur fyrirtækisins um 900.

Rangárþing eystra óskar Sláturfélagi Suðurlands innilega til hamingju með þetta merka afmælisár og þakkar gott samstarf.