Möguleikhúsið kemur með sýninguna Smiður jólasveinsins í Sögusetrið þriðjudaginn 9. desember nk. kl. 16:00. Miðaverð er 2.500 kr. en frítt er fyrir 5 ára og yngri í fylgd með fullorðnum.

Leikritið er ætlað fyrir börn á leikskólaaldri og á yngsta stigi í grunnskóla.


Hátt upp til fjalla situr Völundur gamli í litla kofanum sínum. Völundur er smiðurinn sem sér um að smíða allar gjafirnar sem jólasveinarnir færa börnunum á jólunum. Eftir að síðustu sveinarnir eru farnir til byggða er einmanalegt í kotinu. Þá birtast óvæntir gestir, tröllabörnin Þusa og Þrasi sem aldrei hafa heyrt talað um jólin og sjálfur jólakötturinn, sem þorir ekki lengur að fara til byggða. Völundur tekur vel á móti þeim og saman rifja þau upp söguna af fæðingu Jesú. Þeim þykir sagan svo skemmtileg að þau ákveða að leika hana saman.
 
Smiður jólasveinanna var fyrst sýndur fyrir jólin 1992 og naut þá þegar mikilla vinsælda. Leikritið var síðan gefið út á geisladiski fyrir jólin 1993.