- Íbúar
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- English
Laugardaginn 15. nóvember mun Hótel Fljótshlíð hljóta umhverfisvottun Norræna Svansins. Sigurður Ingi Jóhannsson veitir vottunina með formlegum hætti en Hótel Fljótshlíð er sjöundi gististaðurinn á landinu og þar af fjórða hótelið sem nær þessum góða áfanga.
Á heimasíðu Umhverfisstofnunar stendur að Svansmerkt hótel hefur tekið tillit til allra rekstrarþátta hótelsins í umhverfisstarfi sínu og nær að uppfylla strangar kröfur Svansins. Hótelið vinnur ásamt Norræna umhverfismerkinu í átt að sjálfbæru samfélagi.
Starfsfólk hótelsins vinnur að því að minnka umhverfisáhrif á mörgum sviðum. Til að fá Svaninn þarf hótelið að vera innan ákveðinna marka í orku-, efna- og vatnsnotkun og myndun úrgangs. Að auki ber hótelinu að uppfylla aðrar kröfur sem snerta umhverfisstarf fyrirtækisins á öllum sviðum, meðal annars hvað varðar endurnýjun innanstokksmuna og veitingarekstur.
Þess má einnig geta að Hótel Fljótshlíð hlaut umhverfisverðlaun Rangárþings eystra 2014 fyrir að vera snyrtilegasta fyrirtækið.
Sveitarfélagið óskar þeim Arndísi Sigurðardóttur og Ívari Þormarssyni, hótelstjórum á Hótel Fljótshlíð, innilega til hamingju með að ná þessari vottun.