Maraþonsaumahelgin í Njálureflinum hófst í gær, föstudaginn 1. nóv. kl. 13:00. Áhuginn var svo mikill að nokkrir voru mættir löngu áður en maraþonið byrjaði til að missa nú ekki af neinu. Saumað verður alla helgina, nótt og dag og allt til kl. 18 á sunnudag. Krakkar í 10. bekk Hvolsskóla komu og lásu upp úr Njálu fyrir saumafólk. Það er Auður Fr. Halldórsdóttir kennari sem hefur umsjón með upplestrinum en 10. bekkur er að æfa sig fyrir dagskrá í tilefni dags íslenskrar tungu sem haldin verður 14. nóvember nk.

Í Sögusetrinu er sýningin "Þetta vilja börnin sjá" þar sem sýndar eru myndskreytingar úr nýlegum íslenskum barnabókum.