Rangárþing eystra sýknað í Hérðasdómi Suðurlands

Dómur var kveðinn upp þann 20. mars síðast liðinn í máli nokkurra landeigenda í Fljótshlíð gegn Rangárþing eystra, Vegagerð ríkisins og Landgræðslu ríkisins.

Stefnendur kröfðust þess að ógilt yrði með dómi framkvæmdaleyfi stefndu, Vegargerðarinnar og Landgræðslunnar, sem samþykkt var af sveitarstjórn stefnda Rangárþings eystra 19. September 2010 og gefið út 30. September 2010 vegna viðgerðar og enduruppbyggingar á flóðvarnargarði við Þórólfsfell í Fljótshlíð í Rangárþingi eystra.

Málavextir eru ágreiningur aðila í málinu og á rætur að rekja til varnagarðsins við Þórólfsfell en garðurinn varð fyrir skemmdum í flóði sem rann niður Markafljót vegna eldgossins í Eyjafjallajökli vorið 2010. Eiga stefnendur málsins allir land að Markafljóti.

Í dómsorði segir að stefndu, Rangárþing eystra, Vegagerð ríkisins og Landgræðsla ríkisins skulu sýkn af öllum kröfum stefnenda, Einars Sigurþórssonar, Eyvindarmúla ehf., Guðjóns Stefáns Guðbergssonar, Jóns R. Kristinssonar, Laugdæla ehf., Lögmannsstofu SS ehf., Múlakots 1 Fljótshlíð ehf., Runólfs Runólfssonar, Sigríðar Hjartar, Unnar Tómasdóttir og Þórunnar Jónsdóttur.

Stefnendur greiði in solidum stefnda Rangárþingi eystra kr. 1.000.000.- í málskostnað, en greiði in solidum stefnda Vegargerð ríkisins kr. 700.000.- í málskostnað og in solidum stefnda Landgræðslu ríkisins kr. 700.000.- í málskostnað.

Dómurinn var kveðinn upp af Sigurði G. Gíslasyni héraðsdómara í Héraðsdómi Suðurlands þann 20. mars 2015.