Nafnasamkeppni fyrir nýjan leikskóla er nú lokið og bárust margar góðar og fjölbreyttar hugmyndir. Valnefnd fór yfir allar hugmyndirnar en í henni sátu þau Angelia Fjóla Vilhjálmsdóttir, Ágúst Leó Sigurðsson og Sólbjört Sigríður Gestsdóttir.

Nefndin var samhljóma um að nafnið Aldan myndi henta vel fyrir nýja leikskólahúsnæðið. Fyrst um sinn hét dagvistunin Leikskólinn á Hvolsvelli eða frá árinu 1973 en árið 1993 færðist starfsemin í nýtt húsnæði og fékk þá nafnið Örk sem vísaði í hönnun byggingarinnar. Örkin mun standa áfram og mun húsnæðið að öllum líkindum verða nýtt í aðra starfsemi. Nefndinni fannst því tilvalið að nýtt húsnæði fengi nýtt nafn og varð Aldan fyrir valinu vegna öldunnar á Hvolsvelli sem íbúar þekkja vel. Það þótti tilvalið að velja þetta nafn þar sem deildar leikskólans munu heita eftir örnefnum úr sveitafélaginu og álmur eftir fjöllum úr sveitafélaginu.

Hugmyndin að nafninu Aldan kom frá Önnu Þorsteinsdóttur og færði leikskólastjóri henni viðurkenningu fyrir. Við þökkum þeim sem tóku þátt og sendu inn sína hugmynd og óskum Önnu til hamingju með vinningstillöguna.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Sólbjörtu Sigríði Gestsdóttur, leikskólastjóra, Önnu Þorsteinsdóttur og dóttur hennar Unni Ebbu Ragnarsdóttur.