Á 296. fundu sveitarstjórnar þann 28. apríl síðastliðinn var lagður fram ársreikningur sveitarfélagsins fyrir árið 2021.

Rekstrarniðurstaða A og B hluta var jákvæð um 59,8 m.kr. en niðurstaða A hluta var neikvæð um 15,9 m.kr. Eigið fé í árslok 2021 nam 2.375 m.kr. samkvæmt efnahagsreikningi fyrir A og B hluta og 2.325 m.kr. fyrir A hluta. Veltufé frá rekstri A og B hluta var 229 m.kr. en 155 m.kr. í A hluta. Veltufjárhlutfall var 1,5 í A og B hluta og 1,20 í A hluta. Skuldir og skuldbindingar A og B hluta námu 1.245 m.kr. í árslok 2021 en 1.220 m.kr. í A hluta. Skuldahlutfall A og B hluta í árslok 2021 var 53,8% og skuldaviðmið 24,1% sem er langt frá 150% hámarki viðmiðunarreglna samkvæmt reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga.

Sveitarstjórn bókaði eftirfarandi á fundinum: Sveitarstjórn fagnar þeirri góðu niðurstöðu sem ársreikningur sveitarfélagsins sýnir. Ljóst er að jafnvægi hefur náðst í rekstri sveitarfélagsins eftir krefjandi tíma. Ársreikningurinn sýnir að fjárhagur sveitarfélagsins byggir á sterkum grunni. Þessi grunnur er einmitt það sem gerir sveitarfélaginu kleift að ráðast í þær miklu framkvæmdir sem framundan eru í sveitarfélaginu.