Minnisblað sveitarstjóra, lagt fram á fundi sveitarstjórnar 8. júní 2023.

Verkföll

Eins og flestum er kunnugt er hafið verkfall félaga í stéttarfélaginu FOSS, Félag opinbera starfsmanna á Suðurlandi, sem starfa í leikskólanum Örk og íþróttamiðstöð. Það er þess valdandi að starfsemi leikskólans skerðist til og með 5. júlí, eða þar til samningar milli aðila nást. Foreldrar barna á leikskólanum hafa verið upplýstir varðandi útfærslur skólastarfs á meðan verkfalli stendur. Einnig er rétt að minnast á það að gjöld vegna vistunar barna fyrir þann tíma sem þau geta ekki mætt í leikskólann, verða felld niður. Verkfall starfsmanna í íþróttamiðstöð er ótímabundið og stendur því yfir þar til samningar nást. Opnunartímar íþróttamiðstöðvar, sundlaugar og líkamsræktar verða því óreglulegir, en upplýsingar verða veittar jafnóðum á miðlum sveitarfélagsins.

Samband íslenskra sveitarfélaga fer með samningsumboð f.h. flestra sveitarfélaga á Íslandi, þar á meðal Rangárþing eystra. Því er Rangárþing eystra ekki beinn aðili að samningsgerð milli aðila. Verkfallið hefur nú þegar víðtæk áhrif á landsvísu og mun hafa enn meiri áhrif þegar fram líða stundir ef ekki nást samningar. Ég vil taka undir bókun byggðarráðs frá 1. júní þar sem hörmuð er sú staða sem komin er upp í samningaviðræðum milli BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga og hvetja deilendur til að leysa deiluna sem allra fyrst, öllum til heilla.

Uppbygging miðbæjarsvæðis

Eins og áður hefur komið fram í minnisblaði sveitarstjóra, voru lóðir í miðbæ Hvolsvallar auglýstar til úthlutunar. Tveir aðilar sóttu um að fá lóðunum úthlutað. Byggðarráð hefur nú fundað með hvorum aðila um sig til þess að gera sér betur grein fyrir fyrirhugðum uppbyggingaráformum þeirra. Báðir aðilar eru mjög frambærilegir og hafa hug á því að hefja framkvæmdir við uppbyggingu sem fyrst. Næstu skref hjá byggðarráði er því að meta umsóknir og ákveða hvernig lóðum verði úthlutað.

Festi, sem hefur haft vilyrði fyrir lóðunum milli N1 og apóteksins hefur óskað eftir framlengingu til 6 mánaða á vilyrði fyrir lóðunum og hefur það verið samþykkt. Kynnt hafa verið fyrir sveitarfélaginu spennandi hugmyndir þeirra að uppbyggingu á svæðinu. Ljóst er að sú uppbygging sem áformuð er, mun nýtast öllum íbúum Rangárþings eystra og gestum til góðs. Festi mun nú gangast í frekari hugmyndavinnu um þróun og hönnun fyrir svæðið í samráði við Rangárþing eystra. Helstu byggingaráform sem hönnun mun taka til eru m.a. ný Krónuverslun, apótek, vínbúðin, upplýsingamiðstöð, veitingastaði og sérverslana.

Framkvæmdir við uppsetningu á afsteypu styttu Nínu Sæmundson, Afrekshugur, munu hefjast á næstu dögum. Búið er að setja út fyrir staðsetningu styttunnar og ekkert því til fyrirstöðu að hefja jarðvegsframkvæmdir. Styttan sjálf, svæðið í kring um hana og aðkoma að henni verður hið glæsilegasta og á eflaust eftir að sóma sér vel í miðbænum okkar. Fyrirhugað er að styttan verði formlega vígð við hátíðlega athöfn nú í ágúst.

Íbúafundur í Hvoli – Málefni félagsheimila og sorpmál

Íbúafundur var haldinn í Hvoli, Hvolsvelli þann 24. maí sl. Helstu umræðuefni fundarins voru málefni félagsheimila í sveitarfélaginu og sorpmál. Fundurinn var vel sóttur og sköpuðust góðar og uppbyggilegar umræður á honum. Nú hefur sveitarstjórn fundað með íbúum í öllum félagsheimilum í sveitarfélaginu. Margar góðar tillögur hafa komið fram um notkunarmöguleika, leigu og jafnvel sölu þeirra. Ljóst er að margir sjá mikil tækifæri fyrir félagsheimilin á meðan aðrir myndu helst vilja losa sveitarfélagið undan rekstir þeirra. Sveitarstjórn mun nú vinna úr þeim hugmyndum sem fram hafa komið í samráði við meðeigendur sína sem í flestum tilfellum eru kvenfélög, leikfélög og ungmennafélög. Á fundunum hélt framkvæmdastjóri Sorpstöðvar Rangárvallasýslu góða kynningu á starfsemi og tilgangi sorpstöðvarinnar. Mikið hefur áunnist á þeim vettvangi á undanförnum misserum og er það ekki hvað síst íbúum okkar að þakka sem í flestum tilfellum eru til fyrirmyndar þegar kemur að flokkun sorps. En með því móti má spara umtalsverðar fjárhæðir og vernda umhverfið, þar sem að úrgangi er breytt í verðmæti. Sem dæmi má taka að hér áður fyrr var mest allt sorp sem safnað var frá heimilum í Rangárvallasýslu urðað á Strönd. Nú telst það til undantekninga ef urðun á sér stað, þar sem búið er að finna farvegi til endurnotkunar eða endurnýtingar fyrir flesta úrgangsflokka. En vissulega má alltaf gera betur og það getum við gert saman.

Bókasafn – Verkstæði HBR

Héraðsbókasafn Rangæinga opnaði nú á dögunum Verkstæði HBR. Ýmis tæki og tól er að finna á verkstæðinu sem nytsamleg eru til hinna ýmsu hluta. Má þar helst nefna þrívíddaprentara og skurðarvél, en einnig er þar að finna önnur smærri verkfæri. Á opnun verkstæðisins kynntu starfsmenn bókasafnsins verkfærin og þá möguleika sem þau bjóða uppá fyrir viðstöddum. Notkun tækjanna er öllum að kostnaðarlausu, en greitt er sanngjarnt gjald fyrir það efni sem notað er. Um er að ræða virkilega skemmtilegt frumkvöðlaverkefni af hálfu bókasafnsins og hvet ég íbúa til þess að kíkja við og láta hugmyndaflugið ráða við leik og sköpun.

Að lokum

Nú nýlega var gefin út Sumardagskrá Rangárþings eystra. Sveitarfélagið er stolt heilsueflandi sveitarfélag eins og glöggt má sjá á öllum þeim viðburðum sem eru á döfinni og snúa að heilsueflingu með einhverju móti. Það ættu því allir, ungir sem aldnir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og notið sumarsins til hins ýtrasta.

Megi sumarið vera ykkur gleði- og gæfuríkt

Anton Kári Halldórsson

Sveitarstjóri Rangárþings eystra