Minnisblað sveitarstjóra, lagt fram á fundi sveitarstjórnar 13. apríl 2023.

Auglýsing lóða í miðbæ Hvolsvallar

Lóðir í nýjum miðbæ Hvolsvallar voru auglýstar lausar til úthlutunar með umsóknarfresti til og með 31. mars 2023. Byggðarráð sem fer með úthlutun lóða sveitarfélagsins ákvað að lóðirnar skildu auglýstar sem ein heild. Tilgangur þess var m.a. að fá einn og sama aðilann til að byggja á öllum lóðunum, auka samræmi bygginga og flýta framkvæmdum. Það bar aðeins á því í umræðu um lóðarúthlutun að fólk taldi að búið væri að hanna þær byggingar sem þar eiga að rísa. En svo langt er verkið ekki komið, gildandi skipulag setur ákveðnar kvaðir um notkun, stærð, hæð, form ofl. Síðan er það í höndum lóðarhafa að hanna byggingar sínar í samræmi við gildandi skipulagsskilmála. Ánægjulegt er að segja frá því að það bárust 3 umsóknir um lóðirnar. Byggðarráð mun á næsta fundi sínum yfirfara þær umsóknir og ákveða með næstu skref varðandi úthlutun þeirra.

Íbúafundir í félagsheimilum í dreifbýli

Dagana 27.-29. mars hélt sveitarstjórn íbúafundi í félagsheimilum í dreifbýli sveitarfélagsins. Tilgangur fundanna var að ræða framtíðarmöguleika félagsheimila og einnig var framkvæmdastjóri Sorpstöðvar Rangárvallasýslu með erindi á fundinum varðandi sorpmál í sveitarfélaginu. Fundirnir voru vel sóttir af íbúum og sköpuðust líflegar og gagnlegar umræður. Í Rangárþingi eystra eru 6 félagsheimili. Flest þeirra eru í sameiginlegri eigu sveitarfélagsins og félagasamtaka þ.e. leikfélags, kvenfélags og ungmennafélags og fer sveitarfélagið með stærstan eignarhlut í þeim öllum og sér um daglegan rekstur þeirra. Staða þessara félgsheimila er mjög misjöfn er varðar nýtingu, ástand, aðbúnað ofl. Rekstur þessara félagsheimila var neikvæður upp á um 40 milljónir á síðasta ári og einnig er ljóst að viðhaldi þeirra flestra er verulega ábótavant. Á ný afstöðnum íbúafundum komu fram margar góðar hugmyndir um hvernig auka megi nýtingu og framtíðarmöguleika þessara húsa og nú er það þá eigenda og íbúa að vinna saman að því verkefni. Rétt er að benda á að til stendur einnig að halda sambærilegan fund í félagsheimilinu Hvoli á næstu vikum.

Undirritun samnings við björgunarsveit

Þann 22. mars var undirritaður nýr samstarfssamningur við Björgunarsveitina Dagrenningu. Nýr samningur styður betur við það frábæra og mikilvæga starf sem björgunarsveitin sinnir hér í okkar sveitarfélagi. Fyrir utan það að vera ávallt tilbúin þegar eitthvað bjátar á, oft í mjög erfiðum og krefjandi aðstæðum, aðstoðar björgunarsveitin sveitarfélagið við hina ýmsu viðburði. Nýr samningur felur einnig í sér aukin stuðning til unglingadeildarinnar Ýmis, þar sem er unnið öflugt starf við mótun björgunarsveitarfólks framtíðarinnar.

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga

Landsþing Sambands Íslenskra sveitarfélaga var haldið í Reykjavík þann 31. mars. Rangárþing eystra átti 3 fulltrúa á þeim fundi. Helstu umræðuefni þingsins snerust m.a. að kjaramálum, en Samband íslenskra sveitarfélaga fer með umboð til kjarasamningsgerðar fyrir flest öll sveitarfélög landsins. Einnig voru húsnæðismál í brennidepli, en uppbygging hagkvæms húsnæðis er farin að standa mörgum sveitarfélögum fyrir þrifum. Vettvangur líkt og Landsþing sambandsins er mikilvægur vettvangur fyrir okkur sveitarstjórnarfólk til að bera saman bækur okkar og ræða málefni líðandi stundar, því flestar sveitarstjórnir landsins standa frammi fyrir sömu áskorunum og gott er að nota vettvang sem þenna til fræðslu og til að miðla þekkingu.

Skipulagsmál í Rangárþingi eystra

Líkt og dagskrá þessa sveitarstjórnarfundar ber með sér, er mikið um að vera í skipulagsmálum í sveitarfélaginu. Sjaldan eða aldrei hefur annað eins magn skipulagsmála verið til afgreiðslu hjá sveitarfélaginu líkt og síðustu mánuði. Málin eru af ýmsum toga, snerta bæði þéttbýli og dreifbýli, íbúðarhúsnæði, frístundahús og atvinnutengda starfsemi. Skipulagsmál eru í eðli sínu frekar flókin og verið er að taka mikilvægar ákvarðanir til framtíðar. Því tekur skipulagsferli oft ansi langan tíma. En með vönduðum vinnubrögðum bæði skipulagsnefndar og sveitarstjórnar er líklegt að niðurstaðan verði farsæl. Fjöldi skipulagsmála sem eru til afgreiðslu er ágætis mælikvarði á það sem framundan er í sveitarfélaginu er varðar uppbygingu. Því er ljóst miðað við þann fjölda mála sem til afgreiðslu er, að fólk hefur trú á Rangárþingi eystra og framtíðinni hér.

Framkvæmdir í gangi

Framkvæmdir við gatnagerð á Æskuslóð eru nú hafnar. Um er að ræða nýja götu við leikskólann Ölduna ásamt gerð bílastæða við skólann. Áætlað er að verkinu verði lokið ekki síðar en 1. júní 2023. Framkvæmdir við leiksólann Ölduna ganga vel og er afhending húsnæðisins áætluð nú í maí. Nú nýlega var boðin út lóðafrágangur við leikskólann og verða tilboð opnuð þann 26. apríl. Áætluð verklok lóðafrágangs eru þann 15. ágúst 2023. Gatnagerð við Bæjarbraut er aftur komin á fullt skrið eftir vetrardvala og vonast er til þess að henni ljúki á næstu vikum. Útboð á gatnagerð 3 áfanga Hallgerðartúns hefur verið auglýst og verða tilboð opnuð þann 18. apríl. Áætluð verklok eru þann 15. september 2023. Með þeirri gatnagerð opnast á úthlutun lóða fyrir 10 íbúða fjölbýlishúss, 2 raðhús, 4 parhús og 7 einbýlishús, samtals 32 íbúðir.

Páskarnir

Það var gaman að sjá allt lífið í Rangárþingi eystra nú um nýliðna páska. Fullt af fólki út um allt og þó að veðrið hafi kannski ekki alveg verið eins og best verður á kosið var ýmislegt við að vera. Mikið líf og fjör var í íþróttamiðstöðinni okkar yfir páskana. Opnunartími var lengdur og íþróttasalur opinn upp á gátt fyrir gesti og gangandi. Mikill fjöldi fólks nýtti sér þessa frábæru aðstöðu okkar sér til skemmtunar og heilsubótar og vil ég koma á framfæri kæru þakklæti til starfsmanna íþróttamiðstöðvar fyrir að standa vaktina með sóma alla páskana.

Að lokum

Nú styttist óðum í að sumarið hefji innreið sína og fyrsti dagur sumars í næstu viku. Að sjálfsögðu tökum við öll fagnandi á móti því eftir langan vetur. Hjá sveitarfélaginu er verið í óðaönn að plana verkefni sumarsins og af nógu að taka. Að lokum óska ég ykkur öllum gleðilegs sumars.

 

Anton Kári Halldórsson

Sveitarstjóri Rangárþings eystra