Minnisblað sveitarstjóra, lagt fram á fundi sveitarstjórnar 9. febrúar 2023.

Janúar og byrjun febrúar hafa verið viðburðarríkir í stjórnsýslu Rangárþings eystra. Ljóst er að spennandi ár er framundan og mikil uppbygging víðsvegar í sveitarfélaginu á döfinni. Veturinn hefur verið nokkuð harður frá hinni einmuna blíðu í nóvember og ég er viss um að það eru fleiri en ég farnir að horfa löngunaraugum fram til bjartari daga og jafnvel að það fari að glitta bráðum í vorið.

Brunavarnir Rangárvallasýslu bs.

Nú um áramót varð sú breyting á að slökkvistjóri brunavarna Rangárvallasýslu er komin í 100% starf, sem var áður skilgreint 30% starf. Var það gert í samræmi við brunavarnaráætlun sem samþykkt var fyrir byggðarsamlagið á síðasta ári. Þessi ráðstöfun er í góðu samræmi við þá uppbyggingu sem átt hefur sér stað innan aðildarsveitarfélaganna undanfarin ár. Nú gefst tækifæri til að byggja upp starfið og starfsemina til framtíðar, auka menntun og þjálfun starfsmanna, sinna eldvarnareftirliti ofl.

Stjórn brunavarna átti á dögunum góðan fund með fulltrúum Landsvirkjunar. Tilgangur fundarins var að kanna hug á samstarfi milli þessara aðila. Talsvert af virkjanamannvirkjum Landsvirkjunnar er innan lögsögu Brunavarna Rangárvallasýslu og því þarf að horfa til uppbyggingar m.t.t. þeirra mannvirkja, en Brunavarnir Árnessýslu hafa á undanförnum árum sinnt fræðslu og útköllum á svæðinu. Fundurinn gekk vel og er nú unnið að gerð samstarfssamnings milli aðilanna.

Stjórn Brunavarna Rangárvallasýslu hefur lýst því yfir að áhugi sé fyrir hendi að ráðast í byggingu björgunarmiðstöðvar á Hvolsvelli í samvinnu við björgunarsveitina Dagrenningu og mögulega fleiri aðila. Fundað var með fulltrúum björgunarsveitarinnar nú í janúar þar sem málin voru rædd m.a. stærð og skipulag slíkrar byggingar ásamt álitlegum staðsetningum. Um spennandi verkefni er að ræða, sem á eftir að taka á sig mynd á næstu mánðum.

Þjóðvegur 1 í gegnum Hvolsvöll

Nú í janúar áttu sveitarstjóri og byggingarfulltrúi fund með Vegagerðinni varðandi hönnun og uppbyggingu þjóðvegarins í gegnum Hvolsvöll. Á síðasta ári var hönnunarvinna sett af stað þar sem aðal áhersluatriðið var að gera örugga gönguþverun yfir þjóðveginn. Hönnun hefur gengið vel og vonast er til að hægt verði að ráðast í framkvæmdir þegar vorar.

The Rift - Hjólreiðakeppnin

Eins og undanfarin ár verður hjólreiðakeppnin The Rift haldin hér á Hvolsvelli þann 22. júlí 2023. Keppnin hefur stækkað mikið síðan sú fyrsta var haldin 2019 og telur nú um 1200 þátttakendur. Þess má geta að með þessum 1200 þátttakendum fylgja aðrir 1200-2000 einstaklingar og fjölskyldur, sem þýðir að um 3000 erlendir ferðamenn verða á Hvolsvelli og í nærsveitum helgina 21.-23. júlí 2023. Sveitarfélagið hefur átt í góðum samskiptum við skipuleggjendur keppninnar með þá áherslu að gera meira úr henni fyrir samfélagið. Sveitarfélagið og skipuleggjendur keppninnar hafa mikinn hug á því að nýta þetta einstaka tækifæri til að kynna þá verslun og þjónustu sem hér er í boði ásamt handverki ofl. Um gríðarlega stóran viðburð er að ræða og væri gaman að ná til alls samfélagsins, ungra sem aldna og fá sem flesta til þátttöku í viðburðinum.

Framkvæmdir í gangi

Vegna veðurs hafa framkvæmdir við gatnagerð í miðbæ Hvolsvallar verið á frosti. Með hækkandi sól vonumst við til þess að unnt verði að ljúka þeim á stuttum tíma. Nú er unnið að auglýsingu um úthlutun lóða á svæðinu sem mun birtast fljótlega. Samið hefur verið við verktaka um gatnagerð á svo kallaðri leikskólagötu og mun gatnagerð þar hefjast um leið og veður leyfir, en gert er ráð fyrir að henni ljúki eigi síðar en 1. júní 2023. Nafnasamkeppni um nöfn á þessar götur er nú í gangi og hvet ég íbúa til að senda inn sínar tillögur.

Framkvæmdum á breytingum í kjallara ráðhússins að Austurvegi 4 lauk nú í janúar. Þar hefur skotfélagið Skyttur nú komið upp aðstöðu sinni og hafið æfingar. Aðstaðan er til fyrirmyndar og kemur vonandi til með að styðja vel við æskulýðsstarf félagsins til framtíðar.

Framkvæmdir við nýjan leikskóla eru sem áður á áætlun. Verið er að leggja lokahönd á tilboð í innanstokksmuni og einnig er verið að ljúka við lokahönnun lóðar leikskólans.

Íbúafundir

Byggðarráð Rangárþings eystra samþykkti á fundi sínum þann 2. febrúar 2023 að boðað verði til íbúafunda í öllum félagsheimilum sveitarfélagsins nú í febrúar/mars. Tilgangur fundanna verði að ræða við íbúa um málefni félagsheimila og framtíðarsýn varðandi þau. Einnig munum við nýta tækifærið og ræða önnur mál sem brenna á íbúum. Ég vonast til þess að fundirnir verði vel sóttir og skili okkur tillögum og ábendingum til að vinna úr, sveitarfélaginu okkar til heilla.

 

Anton Kári Halldórsson

Sveitarstjóri Rangárþings eystra