Saumað var í Njálurefilinn um helgina frá kl. 13 á föstudag til kl. 18 á sunnudag. Það var frábær þátttaka í maraþoninu og fjöldi fólks mætti.  66 tóku þátt í happadrættinu sem efnt var til og 106 sinnum var skrifað í saumadagbókina þó svo að allir hafi ekki skrifað. Maríanna Másdóttir, Auður Fr. Halldórsdóttir og Dieter Weischer sáu um tónlistaratriði og laugardag og sunnudag. Dieter, sem er 77 ára gamall, hefur einnig verið afar liðtækur í saumaskapnum.  Nemendur í 10. bekk Hvolsskóla lásu upp úr Njálu á föstudeginum og stóðu sig einstaklega vel. Eva María Þrastardóttir, nemandi í 4. bekk Hvolsskóla, las ljóðið Gunnarshólma og flutti það með prýði.

Benedikt Benediktsson, fyrir hönd Sláturfélag Suðurlands, bauð gestum og gangandi upp á smakk af Tindfjallahangikjöti, reyktum kindavöðva og ölpylsu og var það mál manna að þarna hefði verið á ferðinni mikið gæða kjötmeti.

Nú er búið að skrifa 2376 sinnum í saumadagbókina frá 2. febrúar sl. og verður það að teljast allgóður árangur. Það er búið að sauma 11 metra af reflinum og því eru þeir 79 eftir metrarnir og tæplega þó því verið er að sauma í 8.5 metra núna.

Fleiri myndir frá helginni má finna í myndasafninu og á Facebook síðu Njálurefilsins