Kynningarátak 28. mars til 6. apríl 2014 
Framundan er umfangsmikið kynningarátak á Suðurlandi þar sem ferðaþjónustufyrirtækjum, matvælaframleiðendum, félögum, fyrirtækjum, stofnunum, einstaklingum og öllum öðrum áhugasömum er boðið að taka þátt í.  Átakið kallast „Leyndadómar Suðurlands“ og mun standa yfir frá miðvikudeginum 28. mars til sunnudagsins 6. apríl nk. Það eru Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) og Markaðsstofa Suðurlands, sem standa fyrir verkefninu.
Markmiðið er að kynna sem mest af Suðurlandi og fá sem flesta gesti til að heimsækja Suðurland. Megininntakið í átakinu er  Matur – Saga – Menning.  Hér er kærkomið tækifæri, til að lengja ferðamannatímabilið og koma öllum leyndardómum Suðurlands á framfæri. Markhópurinn eru allir Íslendingar. Á Suðurlandi eru mörg leyndarmál, sem eru vel þess virði að deila, en “leyndarmál” – er einmitt boðskapur ársins í herferð Íslandsstofu, “Ísland allt árið” . Með því að blása í herlúðra Sunnlendinga samtímis  er mögulegt að ná samlegð milli verkefna.  
Dæmi um atburði þessa daga gætu verið tilboð á veitingastöðum, tveir fyrir einn í gistingu, ókeypis í sund,  listsýningar,  tónleikar, skemmtanir, tilboð á sunnlenskum vörum,  lengdur opnunartími verslana , ókeypis í strætó, tilboð í afþreyingu, opin hús víða í fjórðungunum og fleira og fleira. 

Hægt er að fylgjast með framvindu verkefnisins á heimasíðu SASS,www.sudurland.is og á fésbókarsíðu þess, „Leyndardómar Suðurlands“. Hafi fólk einhverjar góðar hugmyndir um „leyndardóma“, sem hægt væri að koma á framfæri er best að setja sig í samband við kynningarfulltrúa verkefnisins, Magnús Hlyn Hreiðarsson í gegnum netfangið mhh@sudurland.is eða síma 480-8200 eða Þórarinn Egil Sveinsson, verkefnisstjóra í gegnum netfangið thorarinn@sudurland.is eða í síma 480-8200.