Þau leiðu mistök áttu sér stað við gerð 5. tbl. fréttabréfs Rangárþings eystra að villa slæddist inn í grein Rósu Aðalsteinsdóttur um Bókakaffið á Heimalandi. Í lok greinarinnar stendur:

"Bókakaffið hefur verið svo vel sótt að okkur finnst greinilegt, að það uppfylli einhverja félagsþörf, sem ekki hafi verið til staðar" en þarna átti að standa: "Bókakaffið hefur verið svo vel sótt, að okkur finnst greinilegt, að það uppfylli einhverja félagsþörf, sem hafi verið til staðar."

Beðist er innilegrar velvirðingar á þessum mistökum.

Grein Rósu var í styttri útgáfu í fréttabréfinu en hér er greinin í heild sinni ásamt fleiri myndum:

Bókakaffi á Heimalandi

Bókakaffið á Heimalandi var fyrst haldið þann 17. nóv 2009 og er því komið á fjórða ár. Það fer fram í herbergi við hliðina á safninu á á opnunartíma þess, annan hvern þriðjudag yfir veturinn, en hlé er gert frá miðjum desember og fram í miðjan janúar.
        Stofnað var til þess í samvinnu Bókasafns V-Eyjafjalla og Kvenfélagsins Eyglóar.  Alltaf er vel mætt, stundum yfir 20 manns, karlar, konur og börn. Við byrjum kl 2 og erum til kl 5 og strax kl 2 fara gestirnir að koma. Sumir eru fastagestir, og þeir koma oftast fyrstir og svo fjölgar smám saman, og foreldrar, sem eru að sækja börnin sín á leikskólann koma meira að segja stundum með þau á Bókakaffið. Sum skólabörnin koma eftir skóla, og eins hafa leikskólabörnin og fóstrur þeirra litið inn. Aldursbil gesta er því 1ára (og jafnvel yngri) til 90 ára.
        Konurnar hafa margar með sér prjóna eða aðra handavinnu, skiptast á uppskriftum og skoða hver hjá annarri. Karlarnir eru meira fyrir að spjalla saman, segja sögur og rifja upp gamla tíma. Ekki má gleyma því, að bókasafnið er opið, og margir koma og skila bókum og fá nýjar, og hefur notkun á safninu aukist við þetta. Börnin eiga athvarf í sínum krók á safninu, og dunda sér við að skoða eða lesa, meðan mamma eða pabbi fá sér kaffi.
 Kvenfélagskonur sjá um kaffi fyrir alla og alltaf er eitthvað heimabakað með því. Þær eiga heiður skilinn fyrir sinn þátt, því hvað blandar betur saman hópi fólks, sem jafnvel ekki þekkist vel, en að drekka saman kaffi, (eða te, djús, eða kakó, börnin fá líka sitt) með meðlæti?
         Alltaf er reynt að hafa eitthvað til fróðleiks og skemmtunnar á hverju Bókakaffi. Fastur liður hefur verið, að elsti þátttakandinn, Guðjón Ólafson í Syðstu-Mörk hefur komið með einhverja frásögn frá gömlum tímum eða farið með eða lesið ljóð, eða annað, sem gaman er að heyra. Bókavörður les oft eitthvað úr bókum safnsins, t.d. er reynt að lesa úr nýútkomnum bókum fyrir jólin. Svo eru allir hvattir til að koma með eitthvað til að lesa upp eða segja frá, og hefur það oft verið mjög gaman og áhugavert. Stundum hefur eitthvert þema verið tekið fyrir. Ýmislegt fleira hefur verið á boðstólum, myndasýningar, einsöngur og loks má geta þess, að 3 telpur úr Hvolsskóla komu á síðasta Bókakaffi og sýndu okkur frumsamið leikrit, sem þær höfðu samið og æft í skólabílnum. Þetta vakti mikinn fögnuð hjá eldra fólkinu og heyrðist einn þeirra segja, að þetta hefði hann ekki þorað að gera á þeirra aldri.
          Bókakaffið hefur verið svo vel sótt, að okkur finnst greinilegt, að það uppfylli einhverja félagsþörf, sem hafi verið til staðar. Ekki taka allir þátt í félagsstarfi eldri borgara, enda um langan veg að fara fyrir suma. Svo hefur komið í ljós, að allir aldurshópar hafa ánægju af þessari samveru. Þarna ríkir góður andi, allir velkomnir, og vonandi heldur þetta starf áfram, enda hvetjum við fleiri til að koma og vera með.

nullnull