Viðtal við Ólöfu Guðbjörgu Eggertsdóttur, hjúkrunarforstjóra Kirkjuhvols, á mbl.is í dag

„Það er sorglegt að geta ekki veitt fleiri einstaklingum en raun ber vitni þá þjónustu sem fólk á sannarlega rétt á,“ segir Ólöf Guðbjörg Eggertsdóttir, hjúkrunarforstjóri á Kirkjuvoli – hjúkrunar- og dvalarheimili aldraðra á Hvolsvelli. Þar er 31 heimilismaður og um 40 starfsmenn í mismiklu starfshlutfalli. Fólk sem dvelst þar á yfirleitt rætur sínar í Rangárþingi. Flestir þekkjast og fyrir vikið er bragurinn hér stundum eins og gerist í stórfjölskyldu.

„Biðlistinn á heimilið hefur aldrei verið lengri, en í dag bíða tólf eftir hjúkrunarrými og sjö eftir dvalarrými. Undanfarið höfum við verið með bráðabirgðaheimild fyrir tveimur umfram hjúkrunarrýmum, en höfum ekki mátt taka inn í þau vegna fjárskorts,“ segir Ólöf Guðbjörg. „Við höfum því ekki heimild til að taka inn í næsta rými sem losnar. Til er í dæminu að íbúar hér í Rangárþingi eystra sem þurfa á hjúkrunarheimili hafi þurft að fara annað ef því við getum ekki sinnt þeim hér. Vissulega væsir ekki um fólkið en ég held við viljum öll eiga okkar ævikvöld með okkar fólk nálægt.“

Hún er kornung en komin á elliheimili. Ólöf Guðbjörg, sem er frá Kirkjulæk í Fljótshlíð, lauk námi í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 2008. Bæði hún og Heiðar Þormarsson sambýlismaður hennar, sem einnig er úr Rangárvallasýslunni, höfðu hug á að setjast að fyrir austan að námi loknu og réði Ólöf sig því til starfa á Kirkjuhvoli. Þegar starf hjúkrunarforstjóra losnaði svo árið 2008 ákvað hún svo að sækja um það – og fékk.

Allt hefur blessast

„Já, stundum verður maður bara að taka slaginn og henda sér beint út í djúpu laugina. Ég var svo sem ekki komin með langa starfsreynslu þegar ég tók við stjórn mála hér, en allt hefur þetta blessast með góðri hjálp. Hér vinnur fólk sem hefur langa reynslu og mikla þekkingu og eins get ég alltaf leitað til starfssystkina á öðrum sambærilegum stofnunum hér á Suðurlandi,“ segir Ólöf Guðbjörg.

Áhersla á heimaþjónustu

Kirkjuhvoll hefur leyfi fyrir 17 hjúkrunarrýmum, 13 dvalarrýmum og 2 dagvistunarrýmum. „Af hálfu velferðarráðuneytis er rekin sú stefna að leggja dvalarrými sem mest af og leggja þess í stað áherslu á heimaþjónustu, sem alla jafna er ódýrari kostur. Ég get verið sammála þessu viðhorfi svo langt sem það nær. Hins vegar eru málin ekki alltaf einföld og það verður að horfa til aðstæðna á hverjum stað,“ segir Ólöf Guðbjörg og heldur áfram:

„Heimaþjónustan er á vegum heilsugæslunnar hér á Hvolsvelli sem aðeins er opin virku dagana og oft er um langan veg að fara í slíkar vitjanir – jafnvel tugi kílómetra – t.d. í Fljótshlíðina, niður í Landeyjar eða austur undir Eyjafjöll. Sé fólk kannski eitt á sveitabæjum er hætta á félagslegri einangrun þótt fólk sé kannski enn við þokkalega heilsu. Þessu fólki getur verið mjög þarft að komast á dvalarheimili, þótt í þéttbýlinu horfi þetta kannski öðruvísi við. Okkur þykir því miður að geta ekki tekið hér inn fleiri hvort heldur er í hjúkrunar- eða dvalarrými, enda er slíkt mun ódýrara en að fólk dveljist t.d. á sjúkrahúsum.“

Að meðaltali kostar eitt hjúkrunarrými um 700 þúsund kr. á mánuði en dvalarrýmið um 330 þúsund kr. Hafi einstaklingur svo meira en 70 þúsund krónur á mánuði í tekjur, t.d. úr lífeyrissjóði, fer allt umfram þær til greiðslu dvalargjalda. Þá er gengið á höfuðstól eigna viðkomandi, til dæmis bankainnstæður og þær látnar borga fyrir vistina að einhverju marki.

„Fyrir hönd skjólstæðinga minna finnst mér þetta mjög óréttlátt. Við borgum öll til ríkis og sveitarfélaga meðal annars svo að velferðarþjónustan virki. Hafi fólk hins vegar náð að safna einhverjum peningum í varasjóð eða til þess kannski að hjálpa börnunum sínum er því nánast refsað með þessu móti. Þetta er nokkuð sem verður að endurskoða, svo allrar sanngirni sé gætt.“