Hið árlega Landsmót Samfés, samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi verður haldið á Hvolsvelli dagana 4. – 6. október. Markmið landsmótsins er að stjórnir í unglingaráðum félagsmiðstöðva landsins hafi vettvang til að mynda tengsl og fá nýjar hugmyndir sem hægt er að nýta í starfi félagsmiðstöðvanna.

Landsmót Samfés er tvíþætt. Annars vegar eru lýðræðisleg vinnubrögð alls ráðandi á Landsmóti Samfés en lokadagur mótsins er helgaður Landsþingi ungs fólks. Er það Ungmennaráð Samfés sem hefur veg og vanda að því að skipuleggja þann viðburð. Á Landsþinginu fær ungt fólk tækifæri til að tjá sig um hins ýmsu málefni þeim hugleikin. Í kjölfarið á landsþinginu tekur ungmennaráð saman niðurstöður og sendir ályktanir á ráðuneyti , sveitarstjórnir og fjölmiðla eftir því hvort ástæða þykir.

Hins vegar er unnið í smiðjum ýmis verkefni og er markmiðið að ungmennin taki það sem þau læri með sér heim og miðli reynslu sinni og þekkingu í sinni félagsmiðstöð. Auk þess er rík áhersla á mikilvægi þess að hitta jafnaldra sína, kynnast nýju fólki og að allir skemmti sér sem best. Smiðjunnar eru fjölbreyttar að vanda en þær verða allar á Hvolsvelli eða í glæsilegu nærumhverfi Hvolsvallar. Ein þeirra er t.d. útivistarsmiðja þar sem ungmennin ganga upp á Stóra Dímon, fara að Seljalandsfossi og Gljúfrabúi skoðaður. Aðrar stöðvar eru m.a. í Tumastaðaskógi þar sem ungmennin fara í leiki svo er líka útieldun, skarpgripagerð, leiklist og margt, margt fleira.

Nú þegar hafa rúmlega 400 unglingar á aldrinum 13 - 15 ára skráð þátttöku sína og eru þeir alls staðar að af landinu. Það má því búast við miklu lífi og fjöri á Hvolsvelli um næstu helgi.