Þemadagar hafa verið allsráðandi á elsta stigi í Hvolsskóla síðustu daga en að þessu sinni var kynjafræði þemað. Nemendur unnu verkefni þvert á námsgreinar sem öll áttu það þó sameiginlegt að tengjast kynjafræði með einhverjum hætti. Nemendur útbjuggu kannanir sem lagðar voru fyrir nemendur, kennara og íbúa sveitarfélagsins, gerðu myndbönd til að útskýra betur þann hluta kynjafræðinnar sem viðkomandi hópur var með og settu upp kynningarbása.

Í gær var svo komið að því að halda opið hús í skólanum þar sem hver hópur stóð á sínum kynningarbás og lagði góður fjöldi leið sína í skólann ásamt öðrum nemendum og kennurum. Nemendurnir stóðu sig einstaklega vel og básarnir voru listilega settir upp. Það má með sanni segja enn og aftur að framtíð okkar hér í Rangárþingi eystra er björt þegar við sjáum unga fólkið okkar standa svona vel að þeim verkefnum sem þau fá í hendurnar.

Dómnefnd var fengin til að meta verkefnin og veita viðurkenningar og var þeirra hlutverk ekki öfundsvert. Að þessu sinni voru þau Arnar Gauti Markússon, Edda Guðlaug Antonsdóttir og Högni Þorsteinsson fengin til starfa og voru viðurkenningarnar af ýmsum toga og skipt bróðurlega milli bekkja.

Það er Anna Kristín Guðjónsdóttir, íslensku- og kynjafræðikennari sem að er hugmyndasmiðurinn að þessu þemaverkefni eins og undanfarin ár og á hún og hennar samstarfsfólk virkilega stórt hrós skilið fyrir þetta vel heppnaða verkefni.

Hér má sjá myndböndin sem að hóparnir unnu.

Hér er tengill á facebook frétt Hvolsskóla um verkefnið þar sem sjá má myndir frá deginum.