Kæru íbúar í Rangárþingi eystra

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að árið 2020 hefur verið okkur mikil áskorun. Þeir tímar sem við upplifum nú eru okkur mörgum erfiðir og vil ég nota tækifærið og hrósa íbúum okkar fyrir þrautseigju og jákvæðni við þessar aðstæður. Það er gaman að fylgjast með að þrátt fyrir lokanir og takmarkanir eru íbúar duglegir að njóta útivistar í okkar fallega sveitarfélagi og vonandi á veðrið eftir að vera okkur hliðhollt áfram. Það er gaman að ganga um þorpið okkar og sjá hve miklu starfsmenn okkar áorkuðu í sumar, en það fór vafalaust ekki framhjá neinum það átak sem gert var hér í sveitarfélaginu og snéri að umhverfinu okkar. Ekki er síðra að kíkja á fallegu náttúruperlunar okkar, fossana, skóga og lundi og dást að náttúrunni og þeirri upplyftingu sem þar átti sér víða stað í sumar. Nýtum tímann og njótum með okkar nánustu.

Þær hertu sóttvarnaraðgerðir sem boðaðar voru fyrir helgina og hafa nú tekið gildi eru mikil áskorun fyrir starfsfólk sveitarfélagsins ekki síður en aðra og vil ég færa öllu okkar starfsfólki bestu þakkir, ykkar framlag er ómetanlegt.

Forstöðumenn sveitarfélagsins hafa, síðan á föstudag, unnið hörðum höndum við skipulag starfsemi allra stofnana þar sem mis mikil röskun á sér stað og er allt kapp lagt á að minnst rask verði á hefðbundnu starfi, ekki hvað síst fyrir börnin okkar, þar sem rútína hversdagsins er þeim svo mikilvæg. Til að mæta sóttvarnaraðgerðum hefur verið leitað allra leiða og er til að mynda kennt í félagsheimilinu Hvoli til að hægt sé að halda fjarlægðartakmörkum. Vissulega er um einhverja skerðingu á þjónustu að ræða, en allir eru boðnir og búnir að hliðra til og gera sitt allra besta til að allt gangi upp. Hins vegar breytast hlutirnir hratt og því getur verið nauðsynlegt að grípa til aðgerða með stuttum fyrirfara, og vonumst við til að allir hafi skilning á því.

Viðbragðs- og aðgerðaráætlanir vegna Covid-19 eru uppfærðar samhliða breytingum á sóttvarnarreglum og má nálgast upplýsingar um þær á heimasíðu sveitarfélagsins www.hvolsvollur.is Við hvetjum alla íbúa til að kynna sér áætlanirnar og fylgjast með breytingum.

Helstu upplýsingar til íbúa úr aðgerðaráætlun sveitarfélagsins eru eftirfarandi:

Fyrir eldri borgara:
Markmið breytinga á þjónustu við eldri borgara er að vernda hópinn sem er í mestri áhættu fyrir smiti vegna Covid-19, skv. leiðbeiningum landlæknis. Það er m.a. gert með því að draga úr samgangi fólks og huga vel að því á hvernig stöðum/svæðum fólk kemur saman.

Hjúkrunar- og dvalarheimlið Kirkjuhvoll:
Stjórnendur Kirkjuhvols hafa tekið þá ákvörðun að loka hjúkrunarheimilinu fyrir heimsóknum ættingja og annarra gesta frá og með 31. október 2020 og þar til annað verður formlega tilkynnt. Er þetta gert að höfðu samráði við Sóttvarnarlækni og Landlækni eftir að Neyðarstigi almannavarna var lýst yfir.

Verið er að tryggja órofinn rekstur stofnunarinnar með því að deildarskipta starfseminni og starfsfólki. Einnig er unnið samkvæmt áætlun til að hefta smitleiðir sem allra mest.

Heilsuefling 60+
Tímar með þjálfara í líkamsræktarstöð Rangárþings eystra hefur verið aflýst þar til annað verður ákveðið.

  • Þjálfari mun þess í stað senda þátttakendum verkefnisins æfingar til að stunda heima.
  • Rangárþing eystra leitast við að hafa vel mokaða og sandaða stíga til að allir geti stundað útivist.

Félagsstarf eldriborgara:
Mikil röskun er á félagsstarfi eldriborgara.

  • Handavinna eldri borgara hefur verið frestað um óákveðin tíma
  • Spil eldriborgara á fimmtudögum hefur verið frestað um óákveðin tíma.
  • Kór eldriborgara hefur gert hlé á æfingum um óákveðin tíma.
  • Boccia-tímar í íþróttahúsi hafa verið felldir niður um óákveðin tíma.

Skrifstofa Rangárþings eystra:
Rangárþing eystra og fyrirtæki sem eru með aðstöðu í húsnæði sveitarfélagsins að Austurvegi 4, beina þeim tilmælum til íbúa að heimsóknir á skrifstofurnar verði í lágmarki og almenningur komi ekki nema að brýn nauðsyn sé fyrir heimsókn. Húsnæðið er lokað fyrir gestum.

Við bendum á að langflest erindi er hægt að afgreiða með símtali, tölvupósti eða fjarfundi.

Allir starfsmenn skrifstofunnar eru í stakk búnir til að vinna sín störf í fjarvinnu og vinnur hluti starfsmanna heima á hverjum tíma. Búið er að hólfaskipta hæðinni í 3 hólf, þar sem hvert sóttvarnarhólf notar sér kaffistofu og salernisaðstöðu. Æðstu stjórnendur, skipta með sér að vinna heiman frá og á skrifstofu og funda eingöngu í fjarfundi til að lágmarka hættu á smiti.

Komið getur til algjörrar lokunar á skrifstofuhúsnæði.

Áhaldahús:
Heimsóknir óviðkomandi bannaðar með öllu um óákveðinn tíma. Starfsmönnum skipt upp í vaktir, til að tryggja órofinn rekstur.

Hvolsskóli:
Skóladagur nemenda í 1.-4. bekk er að mestu óbreyttur sem er afar mikilvægt fyrir börnin.

Allir nemendur upp í 7. bekk, að þeim meðtöldum, mæta alla daga í skólann þó að dagurinn styttist örlítið hjá þeim þar sem ekki er hægt að kenna íþróttir, list og verkgreinar vegna blöndunar á hópum.

8.-10. bekkur mætir annan hvern dag í skólann og fær fjarkennslu hinn daginn.

Nánari upplýsingar eru sendar foreldrum með tölvupósti. Athugið að skipulag skólahalds getur breyst með skömmum fyrirvara og foreldrar eru því beðnir um að fylgjast vel með tölvupósti.

Leikskólinn Örk:
Lagt er upp með að takmarka sem allra mest blöndun milli deilda, til að forðast að loka þurfi öllum leikskólanum komi upp smit á einni deild. Börn foreldra sem starfa á heilbrigðisstofnunum og viðbragðsaðila eru í forgangshópi og verða látin gangi fyrir í vistun, komi til þess að senda þurfi börn heim.

Breyting á ferlum/vistun sem tengjast forráðamönnum og börnum

  • Húsnæði leikskólans er nú lokað fyrir öðrum en starfsfólki og nemendum. Tekið verður á móti börnunum í dyragættinni og starfsmenn sjá um að taka úr töskunni. Ef barn kemur seinna um morguninn þarf að hringja og láta vita svo hægt sé að taka á móti barninu í dyragættinni.
  • Fundarhöld verða í algjöru lágmarki og fundur skulu fara í gegnum fjarfund ef mökuleiki er á því. Foreldraviðtöl eru höfð uppi á lofti eða þar sem hægt er að virða fjarlægðar mörkin. Foreldrar þurfa að spritta hendur.
  • Aðlaganir nýrra barna eru með öðru sniði foreldrar þurfa að vera með grímur í aðlögunni. Aðeins annað foreldrið getur verið í aðlögunni. Reynt er að hafa aðlöguna þannig að aðeins tveir eru í aðlögun í einu og reynt að halda fjarlægðarmörkum eins og unnt er.
  • Ekki verður farið í bókasafn.
  • Leikskólinn vinnur eftir Gátlista: Heilsufar leikskólabarna.
  • Leikskólinn vinnur eftir vinnureglum Leikskólans Arkar vegna Covid-19( sjá t.d á heimasíðu sveitafélagsins, Facebook síðu leikskólans undir skrá)
  • Börnin skulu koma hress og hitalaus í minnsta kosti sólarhring áður en þau koma aftur í leikskólann eftir veikindi.

 

Unnið er samkvæmt ákveðnum ferlum sem tengjast starfsmönnum, útgefnum af leikskólastjóra, til að tryggja órofinn rekstur og rjúfa smitleiðir.

Athugið að skipulag skólahalds getur breyst með skömmum fyrirvara og foreldrar eru því beðnir um að fylgjast vel með tölvupósti.

Tónlistarskóli:
Vegna hertra sóttvarnarráðstafana í samfélaginu verða eftirfarandi reglur í tónlistarskólanum okkar;

  • Grímuskylda í öllum almennum rýmum skólans og í kennslustofum eins og við verður komið fyrir alla fædda 2010 eða fyrr.
  • Allir verða að þvo og spritta hendur fyrir tíma.
  • Allir beðnir um að mæta þegar tíminn hefst en ekki of snemma og yfirgefa húsnæðið að kennslu lokinni.
  • Hóptímar falla niður - s.s. samspil, samsöngur og tónfræði (fyrir utan fjarkennslu tónfræði, hún verður á sínum stað).

Íþróttamiðstöð:
Íþróttamiðstöðin er lokuð að minnsta kosti til 17. nóvember nk.

Félagsmiðstöðin Tvisturinn:
Búið er að fresta öllum skipulögðum viðburðum á vegum félagsmiðstöðvarinnar. Starfsemi félagsmiðstöðvar mun liggja niðri þar til annað verður ákveðið.

Héraðsbókasafn:
Stefnt er á að halda óskertri þjónustu bæði við skóla og almenning en það verður endurskoðað í samræmi við tilmæli sóttvarnarlæknis á hverjum tíma.

Félagsheimili:
Öll félagsheimili sveitarfélagsins eru opin fyrir bókanir, sóttvarnir hafa verið auknar en biðjum við fólk að fara með gát. Komið getur til lokunar á félagsheimilum með stuttum fyrirvara.

  • Um allar samkomur 10 manna og fleiri gildir samkomubann sem virkjað hefur verði skv. heimildum sóttvarnarlaga, sett af heilbrigðisráðherra.
  • Flestum viðburðum, fundum og veislum hefur verið frestað eða aflýst.
  • Sveitarfélagið hefur ákveðið að rukka ekki gjald fyrir þá viðburði sem þarf að aflýsa, jafnvel þó það sé gert með mjög stuttum fyrirvara.

Félags- og skólaþjónusta:
Líkt og aðrar stofnanir fylgir Félags- og skólaþjónustan leiðbeiningum og ákvörðunum stjórnvalda frá degi til dags. Eftirfarandi ráðstafanir hafa verið gerðar:

  • Allir þjónustuþættir félagsþjónustu eru virkir; barnavernd og grunnþjónusta sveitarfélaganna sem er undir verkstjórn og á ábyrgð hennar, þ.e. félagsleg heimaþjónusta, liðveisla og akstursþjónusta.
  • Starfsmenn félagsþjónustu vinna á vöktum til skiptis á skrifstofu og heima til að tryggja órofinn rekstur.
  • Takmörkun á heimsóknum skjólstæðinga á skrifstofu félagsþjónustunnar, lagt upp með að leysa erindi með síma, tölvupósti og fjarfundi.
  • Öll lögbundin þjónusta skólaþjónustunnar við skóla, foreldra og nemendur er virk en ráðgjafar koma eingöngu í skólana ef brýna nauðsyn ber til.

Frestað er fundum sem ekki eru brýnir og frekar notast við fjarfundi, símafundi og tölvupóst.

Nýjustu upplýsingum verður komið til íbúa á heimasíðu sveitarfélagsins, stofnana, facebook og í sumum tilfellum tölvupósti. Eins og áður hefur komið fram getur orðið breyting á þjónustu með mjög skömmum fyrirvara. Stöndum saman, sýnum ábyrgð, virðingu og kærleika sem aldrei fyrr.

Með kærleikskveðju

Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri