Á aðalfundi Félags kúabænda á Suðurlandi sem haldinn var 30. janúar s.l. í Árhúsum á Hellu voru veittar viðurkenningar fyrir góðan rekstur sunnlenskra kúabúa undanfarin ár. 

Viðurkenningarnar eru veittar á grunni svokallaðs SUNNU-verkefnis Búnaðarsambands Suðurlands en árlega taka milli 60 og 70  kúabú á Suðurlandi þátt í því verkefni eða um fjórðungur allra kúabúa á Suðurlandi. Verkefnið hefur verið starfrækt síðastliðin 15 ár og byggir á úttekt á rekstrarárangri samkvæmt ársreikningum þessara búa. Mælistærðir varðandi árangur í rekstri er breytilegur kostnaður á hvern lítra í framleiðslu og framlegðarstig búanna. Verðlaunaveitingin byggir á rekstrartölum þessara búa sl. fimm ár. 

Að jafnaði stóðu þessi fimm bú efst í þeim samanburði sem unnin hefur verið innan SUNNU-hópsins en mörg önnur bú eru með mjög góðan árangur í sínum rekstri. 


Mynd: Bændurnir á kúabúunum fimm sem fengu viðurkenningu. Frá vinstri: Ásmundur Lárusson í Norðurgarði á Skeiðum, Birkir Arnar Tómasson og Bóel Anna Þórisdóttir Móeiðahvoli Rangárþingi eystra, Eiríkur Jónsson Gýgjarhólskoti Biskupstungum, Inga Birna Baldursdóttir og Karel Geir Sverrisson Seli A-Landeyjum, Sævar Einarsson og Jóhanna Elín Gunnlaugsdóttir Stíflu V-Landeyjum, Runólfur Sigursveinsson ráðunautur Búnaðarsambandi Suðurlands og Guðmundur Geir Gunnarsson mjólkurbússtjóri Selfossi, en MS gaf öllum ostakörfu í tilefni af þessum glæsilega árangri. 


Þetta kemur fram í Dagskránni, fimmtudaginn 2. febrúar 2012 og www.dfs.is