Kjötsúpuhátíð 2023 fór fram um nýliðna helgi, að mestu í algjöru blíðskaparveðri þó svo að aðeins hafi verið blautt á laugardeginum. Hvolsvöllur var skreyttur í öllum litum og metnaðurinn svakalegur í skreytingum í ár.

Dagskrá hátíðarinnar var þéttpökkuð frá fimmtudegi til sunnudags og allir sem lögðu leið sína á Hvolsvöll skemmtu sér gríðar fallega og vel. Silent Disco, tónleikar, ljósabolti, kynning á Austurleiðarverkefni, pop up búðir, gönguferð og hlaup, eitthvað fyrir alla.

Súpuröltið var afar velheppnað enda buðu fimm frábærir staðir upp á súpu fyrir gesti og gangandi. Lifandi tónlist, góður félagsskapur og bragðgóðar súpur, það gerist varla betra.

 

Þó svo það hafi verið blautt meðan hátíðardagskráin fór fram þá truflaði það nú ekki þar sem að hið gríðarstóra hátíðartjald hélt öllum þurrum. Oddur Helgi Ólafsson kynnti dagskrána sem m.a. bauð upp á Ávaxtakörfuna, Tónafljóð, BMX brós og Júróvision stjörnuna Diljá. Ekki nóg með að Oddur hafi verið kynnir þá komu hann og félagar hans í hljómsveitinni Krummafót fram milli atriða og slógu algjörlega í gegn.

Sláturfélag Suðurlands bauð gestum upp á gómsætar súpur og einnig var hægt að gæða sér á Göngustöfum. Við kunnum SS kærar þakkir fyrir þeirra aðkomu að hátíðinni enda varla hægt að hægt að halda Kjötsúpuhátíð án þess að fá að smakka kjötsúpu.

Um og yfir 800 manns voru svo mættir á Brekkusöng með Magnúsi Kjartani á laugardagskvöldinu. Tjaldið ómaði af gömlum slögurum, íslenskum söngperlum og vinsælum samsöngvum. Ísólfur Gylfi Pálmason kom og tók nokkur lög með Magnúsi Kjartani og vakti það mikla lukku. Björgunarsveitin Dagrenning bauð upp á feiknalega öfluga flugeldasýningu og svo steig vinsælasta ballhljómsveit landsins, Stuðlabandið, á stokk. Dansandi glaðir ballgestir skemmtu sér konunglega fram eftir nóttu.

Viðburðastofa Suðurlands í samstarfi við Rangárþing eystra hélt utan um hátíðarhöldin að þessu sinni og er mál manna að hátíðin hafi verið með allra glæsilegasta móti að þessu sinni. Viðburðastofan og forsprakki hennar, Einar Björnsson, fær miklar þakkir fyrir að taka þetta verkefni að sér. Þeir sem á einn eða annan hátt komu að vinnu við að gera þessa hátíð að veruleika fá gríðarlega góðar þakkir en sérstaklega má nefna KFR, foreldra og nemendur í 10. bekk Hvolsskóla og starfsmenn Áhaldahúsins á Hvolsvelli.

Takk fyrir frábæra helgi kæru íbúar og gestir sveitarfélagsins og við hlökkum sannarlega til að sjá ykkur að ári.

Myndir frá Kjötsúpuhátíð:

Dagskrá á laugardeginum (myndir Ólafur Ingi)

Súpurölt, Eyþór Ingi og Leikhópurinn Lotta

Skreytingar