Kveikt var á jólaljósunum í miðbænum á Hvolsvelli í gær, fimmtudaginn 16. nóvember. Fjölmenni var mætt á miðbæjartúnið enda veðrið með allra besta móti. 

Jólatréð í ár kemur frá þeim hjónum Ástu Höllu Ólafsdóttur og Garðari Þorgilssyni sem búa í Öldugerði 18. Tréð var gróðursett í garðinum árið 1973 og er því orðið 50 ára og mun prýða miðbæjartúnið fram á næsta ár.

Að venju flutti Barnakór Hvolsskóla nokkur lög í upphafi dagskrár undir stjórn og undirleik Ingibjargar Erlingsdóttur. Í kórnum eru nú yfir 70 nemendur í 5. - 10. bekk og var gaman að sjá styttuna Afrekshug breiða úr vængjunum yfir hópnum meðan á söngnum stóð. Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra, flutti ávarp þar sem meðal annars kom fram að sælla væri að gefa en þyggja en frá barnæskunni man Anton Kári meira  eftir gjöfum sem hann hefur gefið en þeim sem hann fékk sjálfur. Yngri kynslóðinni finnst þetta þó væntanlega ótrúlegt núna. Anton Kári flutti einnig Grindvíkingum kveðju frá sveitarfélaginu á þessum erfiðu tímum.

Þá var komið að því að kveikja á ljósunum á miðbæjarjólatrénu og mastrinu, allt gekk þar eins og í sögu og nú ljóma jólaljósin í miðbænum. Eldri hópurinn í kórnum söng jólalög meðan gengið var í kringum jólatréð og slógust nokkrir rauðklæddir sveinkar í hópinn sem bæði kætti og grætti viðstadda. Jólasveinarnir fengu far með Björgunarsveitinni Dagrenningu og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Dieter Johannesson, 87 ára íbúi á Kirkjuhvoli, lét sig ekki vanta á viðburðinn og kom sér vel fyrir með trommuna sína við jólatréð.

Sveitabúðin Una bauð upp á gómsætt kakó og jólasmakk frá Brauð og co. og jólaísinn var kominn í borðið í Valdísi.

Hér má sjá fleiri myndir frá jólagleðinni