Á morgun, þriðjudaginn 25. nóvember, verður aldeilis góð stemning á Hvolsvelli og mikið um að vera. 

Kveikt verður á jólaljósum sveitarfélagsins og kl. 16:30 hefst dagskrá við Landsbankann þar sem kveikt verður á ljósum jólatrésins við Landsbankann. Útibússtjóri og sveitarstjóri flytja ávörp, barnakór Hvolsskóla syngur jólalög og hægt verður að dansa í kringum jólatréð. Ekki er ólíklegt að nokkrir jólasveinar taki forskot á sæluna og mæti á svæðið.

Í Hvolnum verður kaffihúsastemning og jólabasar frá kl. 15 - 18 en þar verður boðið til sölu heitt kakó og kaffi og eitthvað braðgott með. Á basarnum verður nú hægt að finna eitt og annað til jólanna. Það er starfsmannafélag leikskólans Arkar sem heldur utan um þetta en félagið er að safna sér fyrir námsferð.

Í litla húsinu við hliðina á pósthúsinu verður svo fatamarkaður frá klukkan 12 og fram eftir degi. Þar verður hægt að finna mikið úrval af allskyns fatnaði, skóm og töskum fyrir konur, karla og börn, bæði notað og nýtt.

Það verður því eitthvað fyrir alla á miðbæjarsvæðinu á Hvolsvelli á morgun og vonandi halda veðuryfirvöldin áfram að vera okkur eins hagstæð og síðustu daga.