Jazz undir fjöllum
Jazzhátíð í Skógum undir Eyjafjöllum
18. júlí 2015


Jazz undir fjöllum, árleg jazzhátíð í Skógum undir Eyjafjöllum, verður haldin í tólfta sinn laugardaginn 18. júlí. Hátíðin í ár er alþjóðlegri en oft áður, en fram koma tónlistarmenn í fremstu röð frá Íslandi, Danmörku og Svíþjóð.
 Aðaltónleikar hátíðarinnar fara fram í félagsheimilinu Fossbúð laugardagskvöldið 18. júlí kl. 21:00. Kristín Birgitta Ágústsdóttir, íslensk söngkona búsett í Svíþjóð en með rætur í Skógum, heiðrar sænsku söngstjörnuna Monicu Zetterlund.  Með Kristínu leika tveir ungir framúrskarandi hljóðfæraleikarar;  handhafi Monicu Zetterlund verðlaunanna í Svíþjóð; bassaleikarinn Leo Lindberg og handafi íslensku tónlistarverðlaunanna sem bjarasta vonin í jazzi- og blús; píanóleikarinn Anna Gréta Sigurðardóttir. Einnig íslenski stórtrommarinn sem lék oft með Monicu í Svíþjóð; Pétur Östlund. Aldursbil hljómsveitarmeðlima er 50 ár en kynslóðabilið ekkert.  Þess má geta að nýlega margverðlaunuð bíómynd um ævi Monicu Zetterlund hefur vakið mikla athygli víða um lönd, en tvö af burðarhlutverkum myndarinnar eru leikin af íslenskum leikurum. Monica Zetterlund lést fyrir réttum 10 árum, árið 2005, en hún var ein af skærustu tónlistarstjörnum Svíþjóðar.
 Í Skógakaffi verður boðið upp á lifandi og fjölbreytta dagskrá kl. 14-17.  Þar leikur kvartett danska Hammond-orgelleikarans Kjeld Lauritsen og saxófónleikarans Sigurðar Flosasonar. Auk þeirra leikur Andrés Þór Gunnlaugsson á gítar og Pétur Östlund á ttommur. Kvartett Sigurðar og Kjeld hefur leikið mikið í Danmörku.  Diskar þeirra Nightfall og Daybreak hafa sömuleiðis notið vinsælda og hlotið góða dóma. Kvartettinn flytur vel valda klassíska jazz standarda.  Ókeypis er inn á þessa tónleika og reiknað með að gestir geti komið og farið að vild á meðan á tónlistinni stendur. 
Fyrri hátíðir í Skógum hafa fengið frábæra aðsókn og góða dóma. Hér er á ferðinni einstakt tækifæri til að njóta góðrar og fjölbreyttrar tónlistar í tengslum við lifandi náttúru Íslands eins og hún gerist fegurst. Aðstandendur hátíðarinnar eru Byggðasafnið í Skógum og Sigurður Flosason. Hátíðin nýtur stuðnings Rangárþings eystra, Skógasafns, Hótels Skóga og Hótels Eddu. Aðgangur er ókeypis í Skógakaffi, en aðgangseyrir er kr. 2.500 í Fossbúð.
 Það er von aðstandenda að áheyrendur fjölmenni á  hátíðina undir yfirskriftinni Jazz undir fjöllum á afmælisári.

Nánari upplýsingar:
Sigurður Flosason, listrænn stjórnandi hátíðarinnar: 861 2664
Sverrir Magnússon, framkvæmdastjóri Byggðasafnsins í Skógum: 892 5060


Dagskráin er eftirfarandi:
Laugardagur 18. júlí
Byggðasafnið í Skógum – Samgöngusafn / Skógakaffi
Kl. 14:00-17:00  Flosason & Lauritsen kvartett
Íslensk-dönsk Orgelsveifla
Sigurður Flosason: saxófonn, Kjeld Lauritsen: Hammond-orgel, Andrés Þór Gunnlaugsson: gítar, Pétur Östlund: trommur
  
Félagsheimilið Fossbúð
Kl. 21:00 – Kvartett Stínu Ágústs
Monica Zetterlund Heiðurstónleikar
Stína Ágústs: söngur, Anna Gréta Sigurðardóttir: píanó, Leo Lindberg: kontrabassi, Pétur Östlund: trommur.